VR boðar verkfallsaðgerðir

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að haldin verði atkvæðagreiðsla …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að haldin verði atkvæðagreiðsla um verkfall öðru hvoru megin við helgi næstu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslur vegna komandi aðgerða verði öðru hvoru megin við næstu helgi,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is spurður hvort verkfallsboðun verði lögð fyrir félagsmenn VR á næstunni.

Formaðurinn segir verkfallsboðanirnar lið í aðgerðaáætlun Eflingar og VR sem samþykkt var á fundi þeirra í dag. Fyrirætlanir félaganna verða kynntar nánar í vikunni og í kjölfarið verður boðað til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.

„Þetta aðgerðaplan beinist að stórum fyrirtækjum í ferðaþjónustunni, eins og við viljum kalla það, breiðu bökin í ferðaþjónustunni. Svo erum við að hefja undirbúning að næsta aðgerðaplani sem snýr að öðrum atvinnugreinum, þannig að það er ekki bara þessi fyrirtæki eða atvinnugrein,“ segir Ragnar Þór.

Spurður hvaða aðrar atvinnugreinar það eru sem hann vísar til, svarar Ragnar Þór að endanleg útfærsla þeirra aðgerða liggi ekki fyrir og að hann telji því ekki rétt að tjá sig frekar um það á þessum tímapunkti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert