Ríkissáttasemjari vísar gagnrýni fjármálaráðherra á bug og segir alls ekkert nýtt að aðilar deili um kostnaðaráhrif af kjarasamningum.
„Fyrir þá sem hafa fylgst með kjaradeilum í gegnum tíðina er þetta alls ekkert nýtt,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari og bætir við að oft sé deilt um kostnaðaráhrif af kjarasamningum „nánast þangað til samningur er í höfn“. „Hluti af því vandamáli er að fólk sér hlutina kannski með sínum augum og út frá þeirri sýn sem það hefur á málið.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra velti fyrir sér í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær hvert hlutverk ríkissáttasemjara væri ef deiluaðilar eru ósammála um hvað verið er að ræða á fundunum sem þar hafa verið haldnir undanfarna tvo mánuði. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra tók undir orð Bjarna í Fréttablaðinu í morgun.
Bryndís telur að ákveðins misskilnings hafi gætt hjá Bjarna um að ekki hafi verið rætt um kostnaðarmat því slíkt hafi vissulega verið gert. „Þó að það birtist ekki í því að fólk sé sammála um það þá hefur það verið rætt við samningaborðið. Báðir aðilar hafa farið yfir sínar kröfugerðir með hliðsjón af sínu kostnaðarmati. Þetta er algeng staðreynd í kjaraviðræðum, sérstaklega á meðan þær eru í hnút,“ greinir hún frá.
Bryndís bætir við að jafnvel þótt deiluaðilar hefðu komið sér saman um ákveðna sýn á kostnaðarmatið hefði það ekki endilega leyst þann hnút sem uppi er.
Hún bendir á að ellefu fundir hafi verið haldnir hjá embætti ríkissáttasemjara og að sá fyrsti hafi strax verið boðaður á milli jóla og nýárs, skömmu eftir að málinu var vísað til ríkisáttasemjara. „Það hefur ekkert staðið upp á embættið að halda aðilum að samningaborðinu. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til þess að leiða aðila saman. Það hefur verið unnið mjög markvisst að því að fara yfir þau mál sem aðilar eru tilbúnir að ræða en við höfum ekki komist lengra,“ segir Bryndís.
„Hins vegar getur embættið aldrei borið ábyrgð á deilunni sem slíkri. Deilan er samningsaðilanna og hún er þeirra að leysa. Það er ekkert öðruvísi með þessa deilu en aðrar,“ segir hún og tekur fram að ríkissáttasemjari hafi heimild til að leggja fram miðlunartillögu til lausnar deilu en slíkt sé fjarri lagi í dag. Hún myndi ekki leysa þann hnút sem er uppi.
Allt stefnir í verkföll í næsta mánuði. Spurð segir Bryndís að staðan sem er uppi sé grafalvarleg. „Þegar deila er komin á þann stað að verkföll eru yfirvofandi er það háalvarlegt mál.“
Hún segir ríkissáttasemjara hafa þá skyldu að boða aðila til fundar að minnsta kosti á hálfs mánaðar fresti. Slíkt hafi verið gert og gott betur því fundir hafa verið haldnir vikulega og á tímabili þrisvar í viku. Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsti fundur verður haldinn í deilunni hjá ríksisáttasemjara en sá síðasti var haldinn síðastliðinn fimmtudag. Í síðasta lagi verður hann haldinn í næstu viku.