Raða niður verkfallsaðgerðum

Kosið í bílnum. Þótt kosningin sé rafræn verður félagsmönnum boðið …
Kosið í bílnum. Þótt kosningin sé rafræn verður félagsmönnum boðið að kjósa í þessum bíl sem fer á milli staða í dag, svo sem flestir nýti rétt sinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gengið er til kosninga um verkfallsaðgerðir Eflingar í dag. Átta þúsund manns eru á kjörskrá. Það eru félagsmenn sem starfa undir samningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar um starfsemi hótela og veitingahúsa. Verði verkfall samþykkt leggja allt að 1.000 ræstingastarfsmenn á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni niður störf 8. mars.

Kosningin er rafræn og stendur í þrjá og hálfan sólarhring. Einnig geta félagsmenn kosið inni í þar til gerðum bíl, sem keyrir á milli vinnustaða næstu daga, að því er fram kemur í umfjöllun um kjaramálin í Morgunblaðinu í dag.

Samtök atvinnulífsins og Eflingu greinir enn á um launakröfur Eflingar. Formaður Samiðnar segir hins vegar viðræður iðnaðarmanna „þokast í rétta átt“ og síðdegis í dag kemur í ljós hvort þeirri deilu verður vísað til sáttasemjara.

VR stefnir einnig að verkfallsaðgerðum sem nánar verða útlistaðar í þessari viku. Gert er ráð fyrir kosningu um þær öðrum hvorum megin við helgina. Félagið vinnur líka í samstarfi við Eflingu, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur að aðgerðaáætlun sem verður kynnt á föstudaginn. Fyrstu aðgerðir munu áfram beinast að fyrirtækjum í ferðaþjónustunni en lögð eru drög að aðgerðum á fleiri sviðum atvinnulífsins. Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, útilokar ekki að hans félagsmenn taki þátt í þeim aðgerðum sem verða kynntar á föstudaginn.

Hörður Guðbrandsson, formaður VLFG, segir félagsmenn sína ekki taka þátt í þessum aðgerðum, en félagið muni líklega eiga aðild að aðgerðum á seinni stigum.

Erlendar ferðaskrifstofur lýsa yfir áhyggjum vegna fregna um yfirvofandi verkföll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert