Fagaðilar í iðnaði fordæma harðlega það sem þeir segja vera „óforskömmuð vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar og þeirra aðila sem ganga freklega fram hjá innlendri framleiðslu við innflutning á fullbúnum húsum, innréttingum og húsgögnum hingað til lands“.
Á fjölmennum fundi Fagaðila í iðnaði, sem eru framleiðendur, starfsmenn og áhugamenn íslensks handverks og framleiðslu, var samþykkt ályktun þessa efnis.
„Að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar semji við erlenda aðila um innflutning á húsum, innréttingum og húsgögnum, á sama tíma og þeir eiga að standa vörð um innlenda framleiðslu, vernda störf, halda við kunnáttu í handverki og tryggja réttindi þeirra starfsmanna sem vinna þessi störf, ber heilindum þeirra ekki gott vitni,“ segir í ályktuninni.
Innlenda framleiðslan standist fyllilega þeirri erlendu snúning varðandi gæði og útlit og sé aukinheldur samkeppnisfær í verði og framleiðslutíma. „Innlend verðmætasköpun er grunnur að hagsæld í okkar samfélagi, ekki undirboð erlendis frá á kostnað íslenskra starfa.“
Sú ákvörðun íbúðafélagsins Bjargs að láta framleiða fyrir sig einingahús frá Lettlandi sé skýrt dæmi „um þessa ósvinnu“ og rangt sé að innlendir aðilar geti ekki annað slíkri framleiðslu.
„Málflutningur um fjölda erlendra iðnaðarmanna á Íslandi og getuleysi innlendra framleiðenda til framleiðslu, er ekki samboðin þessum aðilum, enda vita þeir betur þó þeir kjósi að skýla sér á bak við rökleysu af þessu tagi,“ segir í yfirlýsingunni.
Vinnubrögð verkalýðshreyfingarinnar og þeirra sem með þessum hætti kjósi að ganga fram hjá samkeppnishæfri innlendri framleiðslu sé áfellisdómur og lýsi vanhæfi þeirra og afskiptaleysi gagnvart iðnaðarmönnum, fyrirtækjum og þeirri þekkingu sem er til staðar hér á landi. „Hún er eins og blaut tuska framan í andlit almennings á þeim tíma sem samstaða væri dýrmætari en sundurlyndi.“