„Þetta er náttúrulega hátíðisdagur,“ segir Jón Pétursson, aðstoðarmaður formanns Miðflokksins, um aukafund þingflokksins í dag. Fundurinn er sá fyrsti sem þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson sitja eftir að þeir tilkynntu að þeir ætluðu að renna inn í þingflokk Miðflokksins eftir að hafa verið reknir úr þingflokki Flokks fólksins í kjölfar Klausturmálsins og staðið utan flokka um stund.
Þingmenn Miðflokksins eru með því orðnir níu talsins og Miðflokkurinn því stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þinginu, þrátt fyrir að fylgi flokksins í skoðanakönnunum hafi dalað frá því að Klausturmálið kom upp í lok nóvember.
Fyrir liggur að flokkurinn mun gera kröfu um það að kosið verði aftur í nefndir þingsins, „svo að nefndaskipan taki mið af breyttum hlutföllum í stjórnarandstöðu,“ eins og formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson orðaði það í bréfi til flokksmanna á föstudag.
En fleiri þingmenn taka líka meira pláss og blaðamaður spyr hvort miðflokksmenn hafi ekkert hugsað um að krefjast þess að fá stærra þingflokksherbergi niðri við Austurvöll, nú þegar þingstyrkur flokksins er orðinn meiri en bæði til dæmis Framsóknarflokks og Samfylkingar, sem hafa 8 og 7 þingmenn.
„Ég vildi helst bara taka herbergið af Sjálfstæðisflokknum. Nei, ég segi svona. Ég er bara að grínast,“ segir Jón léttur í bragði og bætir við að hann vilji ekki leggja meira á starfsfólk Alþingis sem hafi gert mikið til þess að koma nýjum miðflokksmönnum haganlega fyrir í þingflokksherberginu.
„Þeir vinna kraftaverk á hverjum degi og það er bara eitt skref í einu, en þröngt mega sáttir sitja, segi ég,“ segir Jón Pétursson.