Sagði framgöngu Pírata „ógeðfellda“

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni var heitt í hamsi á þingi í …
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni var heitt í hamsi á þingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, var gríðarlega heitt í hamsi á þingi í dag þegar Smári McCarthy Pírati spurði Sigmund um hagsmuni hans í tengslum við umræður um aflandskrónueigendur og vogunarsjóði. Sigmundur sagði framkomu Smára nýja lægð hjá Pírötum.

Smári velti því fyrir sér hvers vegna svo virtist sem Miðflokkurinn ætlaði að fara í málþóf í umræðu um frumvarp fjármálaráðherra um meðferð krónueigna sem eru háðar sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

Vísaði til Wintris

„Mig langar að spyrja háttvirtan þingmann hvort hann hafi nú, eins og hann hafði fyrir nokkrum árum eins og alþjóð veit, persónulega hagsmuni sem tengjast meðferð þessa þingmáls?“ spurði Smári og vísaði þar til aflandsfélagsins Wintris.

„Ef svo er ekki þá langar mig til að spyrja í þágu hvaða markmiða, eða hvaða hagsmunaaðila, það er sem Miðflokkurinn er nú að reyna að tefja framgöngu þessa máls?

Sakar Pírata um einelti

„Því virðast fá takmörk sett hversu framganga Pírata getur orðið ógeðfelld á þessu Alþingi. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að siðanefnd fari aðeins að fjalla um Pírata og hvernig þeir starfa, ekki bara eineltiskúltúrinn innan þeirra raða heldur líka framkomu þeirra við aðra þingmenn,“ sagði Sigmundur þegar hann steig upp í pontu.

Hann sagði forsendur spurningar Smára fráleitar og efast um að stórir aflandskrónueigendur muni endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum, verði frumvarpið samþykkt.

„Ég hef engra hagsmuna að gæta hjá vogunarsjóðum eins og háttvirtur þingmaður á að geta gert sér grein fyrir en ég ítreka það að mér finnst framganga Pírata hér á Alþingi undanfarnar vikur, undanfarna mánuði og reyndar kannski dálítið mörg ár vera fyrir neðan allar hellur,“ sagði Sigmundur.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reyndist sjálfur hrægrammur

Smári segir þetta vera réttmæta spurningu og óskaði eftir svari. 

„Sá maður sem talaði mest um hrægammana hérna um árið reyndist vera einn þeirra sjálfur. Hann viðurkenndi það í blaðaviðtali á þeim tíma að það væru tengsl milli fyrirtækis sem hafði verið í hans eigu, Wintris, og aflandskrónueigna,“ sagði Smári og hafnaði því að um einelti væri að ræða.

Segir að Smári ljúgi

„Þingmaðurinn sem talaði á undan mér gerðist sekur um meiðyrði. Hann laug og lagði sig fram við það að reyna að stimpla inn ógeðfelldri mynd, sem hann því miður og allt of margir félagar hans hafa á undanförnum árum reynt að viðhalda og koma inn hjá fólki. Ég hef aldrei haft nein tengsl við nokkra hrægammasjóði og það hafa engir ættingjar mínir gert heldur,“ sagði Sigmundur þegar hann svaraði Smára öðru sinni.

„Konan mín tapaði að vísu peningum sem hún átti inni í banka þegar þeir hrundu og gaf megnið af því eftir eins og aðrir sem töpuðu á hruninu. Þessi framganga háttvirts þingmanns setur Pírata í nýjar lægðir finnst mér hér á Alþingi,“ sagði Sigmundur og bætti við að í þessu tilfelli væri fullt tilefni til að vísa framgöngu þingmannsins til siðanefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka