Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann á fertugsaldri fyrir brot gegn valdstjórninni, ólögmæta nauðung og gripdeild. Hann þóttist vera lögreglumaður og framkvæmdi leit á starfsmönnum hótels í miðbæ Reykjavíkur undir því yfirskini.
Atvikið átti sér stað í mars fyrir þremur árum en maðurinn kynnti sig sem lögreglumann fyrir starfsmönnum hótelsins og sýndi þeim skilríki með lögreglustjörnu og númeri.
Fram kemur í ákæru að maðurinn hafi framkvæmt leit á þeim með því að þreifa á þeim og fara í vasa þeirra og taka þaðan tóbak. Að því loknu dró hann starfsmann hótels með sér á lögreglustöðina við Hverfisgötu.
Þegar þangað var komið var maðurinn sem þóttist vera lögreglumaður handtekinn.
Í ákæru segir að með háttsemi sinni hafi ákærði tekið sér lögregluvald, sem hann hafði ekki, notað í þeim tilgangi heimatilbúin lögregluskilríki sem voru áþekk lögregluskilríkjum og beitt mann ólögmætri nauðung.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.