Fjórar sex ára gamlar stúlkur úr Mosfellsbæ enduðu nýverið óvænt úti á Granda í Reykjavík á leið sinni úr fimleikum.
Stelpurnar eru nemendur í Helgafellsskóla og átti starfsmaður skólans að sjá um að sækja þær, en þegar sá kom ekki á réttum tíma ákvað hópurinn að taka strætisvagn með fyrrgreindum afleiðingum. Greint var fyrst frá þessu í bæjarblaðinu Mosfellingi.
„Þær voru að koma úr fimleikum en enginn sótti þær svo stelpurnar ákváðu bara að redda sér sjálfar og tóku strætó og enduðu þá úti á Granda,“ segir móðir einnar stelpunnar í Morgunblaðinu. Aðspurð segir hún stelpurnar ekki hafa verið skelkaðar eftir ferðalagið. Foreldrunum var þó ekki skemmt.