Fæstir segjast bera mikið traust til borgarstjórnar Reykjavíkur og Alþingis í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, þar sem traust almennings til ýmissa stofnana og embætta er mælt. Einungis 18% segjast bera mikið traust til Alþingis, en Landhelgisgæslan, forsetinn og lögreglan njóta mests trausts.
Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem fjallað var um í kvöldfréttum RÚV í kvöld en mikið hefur verið rætt á liðnum árum um mikilvægi þess að auka traust til stjórnmálanna og er meðal annars kveðið á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Landhelgisgæslan, embætti forseta Íslands og lögreglan eru öll með mikið traust hjá almenningi, en yfir 80% segjast bera mikið traust til þessara stofnana eins og undanfarin ár.
Hægt er að glöggva sig á tölunum hér að neðan og sjá samanburð við árið 2018. Alþingi fellur um 11 prósentustig í könnuninni á milli ára. Borgarstjórn Reykjavíkur fellur einnig um átta prósentustig niður í 16%.
Mest eykst traustið til dómskerfisins, en 47% segjast bera mikið traust til þess, samanborið við 36% í fyrra.
Könnun Gallup var gerð dagana 7.-20. febrúar, heildarúrtaksstærð var 1.424 einstaklingar og 54,3% þeirra tóku þátt í könnuninni.