Beita taktíkinni í fyrsta sinn

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Eflingu.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá Eflingu.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að sú aðferð að takmarka umfang verkefna félagsmanna Eflingar á 40 hótelum og rútubílstjóra sem hluti af verkfallsaðgerðum sem boðaðar voru í gær, sé tilkomin vegna ákalls starfsfólks um að taka virkan þátt í verkfallsaðgerðunum. Hann er ánægður með kjörsókn í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir 8. mars nk. sem lauk í gær.

„Planið er hugsað strategískt. Heimildir til verkfallsaðgerða lúta fyrst og fremst að því að geta skapað þrýsting við kjarasamningsgerð. Það er atriði númer eitt að setja aðgerðirnar upp þannig þær hafi áhrif og sýni þann kraft sem íslenskt verkafólk hefur og áhrifin þegar það leggur niður störf,“ segir Viðar spurður út í hugsunina að baki aðgerðaáætlun Eflingar.

„Í öðru lagi þykir okkur það skjóta skökku við hve einkennilegt það er að sá geiri sem hefur einna helst dregið Ísland úr úr efnahagshruninu, haldið uppi hagvextinum og leitt til kaupmáttaraukningar sem helst hefur verið fundið fyrir hjá millistéttarfólki, að hann sé rekinn á grundvelli svæsinnar láglaunastefnu,“ segir hann og nefnir einnig að í þessum geira séu kjarasamningsbrot mjög útbreidd.

Ánægður með þátttöku í atkvæðagreiðslunni

11% á kjörskrá greiddu atkvæði í liðinni viku vegna verkfallsaðgerða  sem boðað er 8. mars nk.

„Yfir 90% þeirra sem tóku afstöðu styðja aðgerðir. Við vitum af hverju það er. Við höfum farið inn á þessa vinnustaði, haldið vinnustaðafundi o.s.frv. Þetta eru þeir staðir þar sem reiðin kraumar og þetta á líka við um rútubílstjórana. Þeir eru kannski margir hverjir með hærri heildarlaun en hjá þeim birtist þetta í formi gríðarlegs vinnuálags og ósanngjarnra krafna sem gerðar eru til þeirra dags daglega,“ segir Viðar.

Spurður hvort það valdi vonbrigðum hve lág kjörsóknin var, segir Viðar að auðvitað hefði hann viljað sjá fleiri taka þátt.

„En ég held það dyljist það engum að við í Eflingu höfum verið í fararbroddi undanfarið í því að kynna starf verkalýðsfélaganna almennt. Við höfum lagt mikið á okkur til að ná fram sem mestri þátttöku og erum mjög sátt með að hafa náð fram fjölda sem er sambærilegur við þann fjölda sem mun fara í verkfallið,“ segir Viðar. Hann nefnir að auki að það sé þekkt að kjörskrár séu óvenju stórar í verkalýðsfélögunum þar sem fólk sé sjálfkrafa skráð í þau.

Beita taktíkinni í fyrsta sinn 

Aðgerðirnar sem boðaðar voru í gær og atkvæði verða greidd um í næstu viku eru óvenjulegar að því leyti að ekki er í öllum tilfellum um fulla vinnustöðvun að ræða. Þannig verður starfsfólki óheimilt að framkvæma verkefni sem ekki eru tilgreind í starfslýsingu þann 18. mars nk., allt til 21. mars. 23.-27. mars taka sömu takmarkanir gildi að viðbættu banni við að þrífa salerni og sameiginleg rými. Koll af kolli bætast svo við auknar takmarkanir og  tiltekna daga verður síðan í gildi full vinnustöðvun.

Verkfallsboðanir Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness.
Verkfallsboðanir Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness.

„Til viðbótar við hreinar vinnustöðvanir á tilteknum heilum dögum, þá boðum við aðgerðir sem fela í sér mun smærri vinnustöðvanir. Þetta er ákveðin taktík sem við erum að prufa í fyrsta sinn, ég held að svona verkfallsboðanir hafi ekki verið gerðar áður á Íslandi. Þá mætir viðkomandi starfsmaður til vinnu, en það er eingöngu ákveðinn hluti af hans daglegu störfum sem hann vinnur ekki,“ segir Viðar.

Gætu þurft að loka vegna takmörkunar á umfangi verkefna

Í tillögu Eflingar segir að starfsmönnum sé áskilinn fullur réttur til greiðslu launa fyrir störf sín utan vinnustöðvunar og fyrir störf sem kann að vera bætt við starfsskyldur þeirra í stað þeirra sem vinnustöðvunin tekur til. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að verkfallsaðgerðirnar væru mjög umfangsmiklar og þær væru hannaðar með það fyrir augum að valda hámarkstjóni með sem minnstum tilkostnaði þeirra sem að stæðu.

„Þegar horft er strategískt á verkfallsaðgerðir er auðvitað hugsað út í það að þær hafi sem mest áhrif í hlutfalli við kostnað, fyrirhöfn og annað,“ segir Viðar. Spurður hvort hugmyndin sé að spara verkalýðsfélögunum greiðslur úr verkfallssjóðum með því að fara þessa leið segir Viðar að hugsunin sé að bregðast við kalli starfsfólks um aðgerðir.

Efling hefur í tvígang boðað til verkfallsaðgerða síðustu daga. Í …
Efling hefur í tvígang boðað til verkfallsaðgerða síðustu daga. Í gær boðuðu VR og Efling til aðgerða hjá rútubílstjórum og hótelstarfsfólki. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Starfsfólk á þessum stöðum sem hefur mikinn vilja til þess að framkvæma verkfallsaðgerðir á hátt sem felur í sér meiri virkni. Við höfum kallað þetta þátttökuverkfall því þetta er öðruvísi en að sitja bara heima. Það krefst ákveðins vilja hjá starfsmanninum og staðfestu að framfylgja verkfallsaðgerðum af þessu tagi. Þetta færir aðgerðina sjálfa inn á vinnustaðinn,“ segir Viðar og segir samtöl við starfsfólk benda til þess að það sé reiðubúið að taka þátt í aðgerðum sem þessum.

Búist þið við því að það gæti þurft að loka fyrirtækjum tímabundið í einhverjum tilfellum þar sem tiltekin verkefni eru ekki unnin, þótt ekki sé um að ræða hreint verkfall? Gætu vinnuveitendur þá beitt verkbanni á móti?

„Erfitt er um slíkt að spá, en þetta eru allt saman möguleikar sem við höfum velt fyrir okkur og munum bregðast við,“ segir Viðar sem telur að í einhverjum tilfellum gæti þurft að hætta starfsemi vegna aðgerðanna. „Á einhverjum tímapunkti gæti það vel gerst. Aftur á móti er innbyggð inn í áætlunina ákveðin stigmögnun. Ég á ekki von á því að það þurfi að loka hóteli strax bara af því þrif á sameiginlegum rýmum eru ekki gerð, svo ég nefni dæmi. Þegar fleiri svona aðgerðir koma saman, þá gæti komið til þess. Það verður að koma í ljós, en við vonum að það takist að semja áður en til þess kæmi,“ segir Viðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert