Raddir sem þurfa að heyrast

Elínborg Kolbeinsdóttir og Chanel Björk Sturludóttir sátu eitt kvöldið yfir …
Elínborg Kolbeinsdóttir og Chanel Björk Sturludóttir sátu eitt kvöldið yfir kaffibolla og spjallið leiddi til þess að hugmynd að pallborði meðal kvenna af erlendum uppruna kviknaði. mbl.is/Hari

Raddir kvenna af erlendum uppruna heyrast ekki oft á opinberum vettvangi á Íslandi þrátt fyrir að hlutfall innflytjenda á Íslandi hafi aldrei verið hærra en árið 2018 þegar það var 12,6% mannfjöldans. Þessar raddir fá að heyrast á fimmtudaginn en þá verða haldnar pallborðsumræður í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir eiga heiðurinn að hugmyndinni en hún kviknaði yfir kaffibolla vinkvennanna fyrir nokkrum mánuðum. 

Elínborg er með meistarapróf í mannréttindum og lýðræðisþróun frá Ítalíu en hún er einnig með BA-próf í félagsfræði. Chanel er með BA-próf í fjölmiðlafræði frá háskólanum í Nottingham og starfar sem framleiðandi hjá Sagafilm.

Saga móður minnar

„Við Elínborg erum vinkonur frá því í menntaskóla og vorum eitt kvöldið að rifja upp sögu móður minnar, Letetiu B Jonsson. Hún er bresk af jamaískum uppruna og þau pabbi kynntust þegar þau voru bæði á ferðalagi um Afríku. Þau fluttu með okkur systurnar til Íslands árið 2004 og mamma tók mikinn þátt í viðburðum meðal kvenna af erlendum uppruna hér á landi. Má þar nefna Women in Iceland; Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi,“ segir Chanel en mamma hennar er flutt aftur til Bretlands.

Að sögn Chanel heillaðist mamma hennar af öllum þessum ótrúlega flottu og frambærilegu konum og hvernig þeim hafði tekist að koma sér fyrir í íslensku samfélagi oft án þess að þekkja nokkurn annan en maka við komuna til landsins.

Letetia las bók eftir bandaríska konu, Amalíu Líndal, sem fluttist hingað til lands með íslenskum eiginmanni árið 1949. Árið 1962 gaf hún út bókina Ripples from Iceland en þar lýsir hún lífi kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

„Í bókinni lýsir Amalía upplifun sinni af því að flytjast hingað til lands með fjölskyldu sína og mömmu fannst svo magnað hvað hún þekkti þessar sögur vel. Hún átti mjög auðvelt með að samsama sig við margt af því sem þarna kom fram þrátt fyrir að tæp hálf öld væri liðin frá útgáfu bókarinnar,“ segir Chanel.

Hún heillaðist svo af frásögn Amalíu að hún ákvað að taka viðtöl við konur sem hún hafði kynnst frá því hún kom til Íslands, segir Chanel en þessar konur eru, líkt og Amalía og Letetia, innflytjendur á Íslandi.

Móðir Chanel Björk Sturludóttur fluttist hingað til lands árið 2004 …
Móðir Chanel Björk Sturludóttur fluttist hingað til lands árið 2004 og kynntist hér mörgum flottum erlendum konum. mbl.is/Hari

Framhald af sögu Amalíu og Letetiu

„Mamma ætlaði í raun að vinna framhald af Ripples from Iceland en því miður hefur hún ekki lokið við verkefnið en við Elínborg ákváðum að taka verkefnið upp að nýju og fyrsta skrefið er að standa fyrir þessum pallborðsumræðum kvenna af erlendum uppruna,“ segir Chanel.

Verkefninu er ætlað að fagna fjölbreytileika í íslensku samfélagi og framlagi þessara kvenna til íslensks samfélags um leið og þær vilja opna umræðu um stöðu erlendra kvenna á Íslandi.

Elínborg segir að þær Chanel vilji halda þessu starfi Amalíu og Letetiu áfram með pallborðsumræðunum og helst af öllu að þessi viðburður verði fyrsti áfangi af mörgum. „Þetta er í raun frumraun okkar á þessu sviði og við erum mjög þakklátar fyrir hvað allir hafa tekið okkur vel. Ekki síst konurnar sem ætla að taka þátt í umræðunum. Ætlunin er að pallborðsumræðurnar verði frjálslegar og í raun miklu frekar spjall þeirra á milli og við áheyrendur,“ segir Elínborg.

„Eitt af því sem verður til umræðu er tungumálið; hvaða áhrif það hefur haft á möguleika þeirra við að koma sér fyrir í samfélaginu. Bæði tungumálaörðugleika og á hvaða sviðum það snertir þær, svo sem heilbrigðisþjónustu og á vinnumarkaði,“ segir Chanel.

Konurnar eru allar með ólíkan bakgrunn og koma víða að. „Það voru svo margar frábærar konur sem komu til greina og það var erfitt að velja úr þessum stóra og góða hópi,“ segir Chanel.  

Konurnar sem taka þátt eru: Edythe Mangindin, ljósmóðir, hjúkrunarfræðingur og ritari Samtaka kvenna af erlendum uppruna (Women in Iceland). Edythe er fædd og uppalin í Bandaríkjunum en foreldrar hennar eru upprunalega frá Filippseyjum. Hún flutti til Íslands árið 2009. Meistaraverkefni hennar frá Háskóla Íslands fjallaði um tungumálaörðugleika, menningarmun og skort á úrræðum sem koma í veg fyrir örugga og fullnægjandi barneignarþjónustu kvenna af erlendum uppruna og leiða til ójafnaðar innan heilbrigðiskerfisins.

Claudia Ashonie Wilson, lögfræðingur hjá Rétti, en hún var einmitt viðmælandi Letetiu á sínum tíma en þá var hún nemi á Íslandi. Claudia er fyrsti nemandinn af erlendu bergi brotinn sem lýkur fullnaðarnámi í lögfræði með meistarapróf frá Háskólanum í Reykjavík. Claudia flutti hingað til lands frá Jamaíku árið 2001.

Zahra Mesbah, tannlæknanemi og eigandi Kabul túlka- og þýðingaþjónustu. Zahra kom hingað til lands árið 2012 en hún er flóttamaður frá Afganistan.

Sanna Magdalena, oddviti Sósíalistaflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Sanna Magdalena hefur setið í borgarstjórn fyrir Sósíalistaflokkinn frá því í fyrra og er með MA-próf í mannfræði með áherslu á margbreytileika.

Anna Marta Marjankowskam, meðstjórnandi Eflingar, en hún er pólsk og hefur búið hér á landi frá árinu 2016. Hún var kjörin í stjórn Eflingar í fyrra og hefur unnið ötullega að bættum kjörum verkafólks á Íslandi.

Fríða Rós Valdimarsdóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, verður fundarstjóri og meðal þess sem rætt verður er sýn þátttakenda á hvernig hægt er að auka þátt erlendra kvenna í samfélaginu og sýnileika þeirra á opinberum vettvangi.

Elínborg Kolbeinsdóttir segir mikilvægt að raddir þessara kvenna heyrist í …
Elínborg Kolbeinsdóttir segir mikilvægt að raddir þessara kvenna heyrist í opinberri umræðu. mbl.is/Hari

Fjölbreyttur hópur sem þarf að sjást og heyrast

Ýmsar ástæður eru fyrir því að erlendar konur setjast hér að og mikilvægt að þeirra raddir heyrist. Að það sé tekið tillit til þeirra og þeirra framlag til samfélagsins sé mikilvægt segja þær Chanel og Elínborg.

Í sérhefti félagsvísa um innflytjendur sem kom út í lok janúar birti Hagstofa Íslands í fyrsta sinn sérstaka umfjöllun um félagslega velferð innflytjenda. Niðurstöðurnar benda til þess að innflytjendur hafi gott aðgengi að íslenskum vinnumarkaði, séu upp til hópa aðilar að stéttarfélagi og búi við áþekk umhverfisleg gæði og öryggi í sínu nærumhverfi og innlendir íbúar. Hins vegar mæta þeir hindrunum við að sækja sér menntun, fá síður störf við hæfi, búa við þrengri húsnæðiskost og hafi að hluta til verri fjárhagsstöðu en innlendir íbúar.

Innflytjendur eru fjölbreyttur hópur sem kemur hingað til lands af ýmsum ástæðum; svo sem til þess að mennta sig, vinna, vegna fjölskyldutengsla eða eru einstaklingar á flótta. Hlutfall innflytjenda á Íslandi er nú orðið áþekkt því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Að því sögðu er margt sem bendir til þess að innflytjendur á Íslandi séu frábrugðnir innflytjendum á hinum Norðurlöndunum. Til dæmis eru nær allir annarrar kynslóðar innflytjendur hérlendis á aldrinum 0-17 ára og hlutfall þeirra lægra hér en á flestum hinum Norðurlandanna, sem er til marks um stutta sögu innflytjenda á Íslandi. Það sem meðal annars einkennir innflytjendur á Íslandi er að flestir þeirra eru karlar á vinnualdri sem hafa dvalið hér í stuttan tíma. Enn fremur er fæðingartíðni meðal innflytjenda lægri en meðal innlendra íbúa. Flestir innflytjendur eiga uppruna sinn í löndum þar sem heilsa, menntun og efnahagsástand er svipað og á Íslandi og telst með því besta sem þekkist á alþjóðlegan mælikvarða.

Viðburðurinn Hennar rödd – pallborðsumræður með konum af erlendum uppruna verður haldinn í Gym & Tonic-salnum á Kex Hostel klukkan 17 og fara pallborðsumræðurnar að mestu leyti fram á íslensku. Spurðar út í túlkaþjónustu segja þær að því miður sé ekki öruggt að hægt sé að tryggja að slík þjónusta sé í boði vegna skorts á fjármunum. Um sjálfboðastarf sé að ræða af þeirra hálfu og þrátt fyrir góðan stuðning frá ýmsum samtökum vantar mikið fjármagn inn í þennan málaflokk, það er þjónustu við fólk af erlendum uppruna. Til að mynda sé enginn fastur starfsmaður hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna sem sé mjög bagalegt því mikilvægt sé að konur séu upplýstar um réttindi sín og annað.  

Hagstofa Íslands

Þær benda á mikilvægi þess að innflytjendur sjáist í opinberri umræðu, svo sem í stjórnmálum og fjölmiðlum, en telja að þar megi gera mun betur en nú er. Því hvetja þær fólk úr stjórnmálum, fjölmiðlum, menntakerfinu og víðar til þess að koma og hlýða á raddir sem eigi að heyrast í íslenskri umræðu. Raddir sem eigi að heyrast miklu oftar en raunin er. Ekki síst ef horft er til þess hversu margar þessar raddir eru, raddir sem verða fleiri með hverju árinu sem líður og fjölbreyttari. Ekki síst með nýjum kynslóðum, afkomendum innflytjenda sem sest hafa að á Íslandi.

Kvenréttindafélagið er eitt þeirra félaga sem hefur staðið fyrir námskeiðum þar sem erlendar konur eru fræddar um hvernig þær geti gert það. Ekki endilega beint í gegnum stjórnmálaflokka heldur einnig samtök eins og Women in Iceland og fleiri félög, segja þær Chanel og Elínborg, en eftirfarandi samtök styðja viðburðinn og hvetja áhugasama til að mæta:

WOMEN In Iceland, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi
Kvenréttindafélag Íslands
Mannréttindaskrifstofa Íslands / Icelandic Human Rights Centre
Jafnréttisstofa
UN Women - Íslensk Landsnefnd

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert