Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka í nýjum þjóðarpúlsi Gallup, með 25% fylgi og bætir við sig á milli mánaða. Samfylkingin mælist með næst mest fylgi eins og undanfarna mánuði, en fylgið dalar þó frá síðustu mælingu síðan og er nú 16,8%. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Sósíalistaflokkurinn næði inn manni á Alþingi miðað við niðurstöður þjóðarpúlsins og er það annan mánuðinn í röð sem fylgi flokksins er yfir 5%. Flokkur fólksins mælist með 3,4% fylgi og næði ekki manni kjörnum inn á þing, en flokkurinn fékk fjóra þingmenn kjörna á Alþingi í síðustu kosningum.
Vinstri græn mælast með 12,3%, ögn stærri en Píratar sem mælast með 11,6% fylgi. Þar á eftir koma svo Viðreisn og Framsóknarflokkurinn, með 9,9 og 9 prósentustiga fylgi.
Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn miðað við þingstyrk, Miðflokkurinn, mælist með 6,7% fylgi, en fylgi flokksins hefur ekki náð sér á strik eftir að Klaustursmálið kom upp í nóvember.
Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mælist 48% og minnkar um eitt prósentustig á milli mánaða.
Könnunin var netkönnun, sem gerð var daga 31. janúar til 28. febrúar. Úrtaksstærð var 7.060 einstaklingar og af þeim svöruðu 53,5%. Vikmörk á fylgi flokka eru á bilinu 0,2-1,6%.