Gæti leikið golfiðkendur grátt

Síðasta haust var sérstaklega gott, veðurfarslega séð, sumir léku fram …
Síðasta haust var sérstaklega gott, veðurfarslega séð, sumir léku fram í nóvember. Verði klukkunni seinkað gæti það haft áhrif á golftímabilið. mbl.is/Hari

Breytingar á staðartíma á Íslandi, nánar tiltekið seinkun klukkunnar, sem nú er til umræðu í samráðsgátt stjórnvalda, gæti orðið til þess að sá tími sem unnt er að leika átján holur að loknum fullum vinnudegi styttist um tvær til þrjár vikur. Þetta segir Björn Víglundsson, formaður Golfklúbbs Reykjavíkur. Í þessu samhengi séu síðsumarkvöldin sérstaklega undir.

Í skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið um möguleika á breytingu á staðartíma á Íslandi eru settir fram þrír valkostir:

  1. Óbreytt staða, klukkan yrði áfram einni klukkustund fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu, en með fræðslu yrði fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.
  2. Klukkunni yrði seinkað um eina klukkustund frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins. (Dæmi: kl. 11.00 nú, yrði kl. 10.00 eftir breytingu).
  3. Klukkan yrði áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hæfu starfsemi seinna á morgnana.

Björn segir að golftímabilið geti verið jafn mismunandi og íslenska veðurfarið, en allajafna standi golfvertíðin yfir frá því í byrjun maí og fram í lok ágúst eða miðjan september.

„Þá fer að hægjast um, en við spilum alveg þar til það byrjar að frysta,“ segir Björn og eru þá helgarnar mest nýttar. Hann segir að hópar á borð við eldri borgara sem hafi rýmri tíma spili þó jafnvel allt árið um kring.

„Þunginn í íþróttinni er samt frá maí og fram í september. Síðasta haust var sérstaklega gott og vertíðin stóð nokkurn veginn út október. Þá var tímabilið óvenjulangt,“ segir hann.

Síðsumarkvöldin styttist og kaldara verði í veðri

Björn segir að með því að seinka klukkunni yrði útivistarstundum á sumrin fækkað og erfiðara verði fyrir golfiðkendur að leika golf á síðsumarskvöldum.

„Ég held reyndar að allir þeir sem stundi útivist á sumrin, hvort sem það er að grilla, golfa eða fara í fjallgöngur, hafi þá skoðun að með þessari tillögu sé verið að stytta útivistarstundirnar. Sumarkvöldin verða styttri og þá kannski einna helst ágústkvöldin sem hafa verið drjúg til alls konar útivistar. Þetta myndi hafa skörp áhrif á þau,“ segir hann.

Björn bendir á að í fyrsta lagi sé hlýrra útivið þegar sól sé á lofti. „Þótt það geti vel verið að við náum að klára átján holur eftir vinnu, þá er sólin alla vega hærra á lofti þegar haldið er af stað við núgildandi fyrirkomulag,“ segir hann.

„Í öðru lagi fer þetta að verða dálítið kapphlaup þegar líður á sumarið. Um miðjan ágúst fer að verða erfitt að spila átján holur eftir fullan vinnudag. Það er ljóst að ef þessu verður breytt um klukkutíma, þá færist kapphlaupið til. Mér telst til að þetta séu u.þ.b. hálfur mánuður til þrjár vikur sem þetta munar,“ segir hann. Með öðrum orðum styttist það tímabil sem hægt er að leika átján holur eftir vinnu. Björn bendir á að á þeim árstíma sem um ræðir styttist dagurinn um u.þ.b. hálftíma á hverri viku.

Þurfi að leika færri holur eða hefja leik fyrr

Spurður hvaða afleiðingar þetta myndi hafa fyrir golfiðkendur svarar hann því til að í raun séu tveir kostir í stöðunni.

„Menn þurfa annað tveggja að sætta sig við færri holur eða hefja leik fyrr með einhverjum hætti,“ segir hann. Spurður hvort þetta valdi því að golfiðkendur freistist til þess að fara fyrr úr vinnu til að ná golfhringnum segir hann að það sé einn möguleikinn.

„Það hafa auðvitað ekki allir tök á því samt. Ég held að mesta hættan sé að færri hringir verði einfaldlega spilaðir. Þetta er auðvitað líkamsrækt mjög margra. Ég er ekki læknismenntaður maður og ætla ekki að leggja mat á það hvaða áhrif þetta hefur á heilsu fólks, en þetta er í það minnsta heilsurækt mjög margra,“ segir hann.

Golfhreyfingin ekki ein um afstöðu sína

Golfhreyfingin í heild sinni hefur vakið athygli stjórnvalda á afstöðu sinni til breytinga á staðartíma á Íslandi. Björn segir að í athugasemdunum komi fram áþekk sjónarmið og í ábendingum annarra samtaka og hagsmunaaðila sem hafi útivist að leiðarljósi. Golfhreyfingin stendur því ekki ein.

„Og því fer fjarri. Grunnforsendan í tillögunum eru almannaheillasjónarmið. Ég held að í þessu séu ekki minni almannaheillasjónarmið, þ.e. að fólk geti stundað fulla vinnu og sinnt heilsurækt og útivist eftir vinnu. Það er mikilvægt að sinna hreyfingunni, þessi málstaður hefur að minnsta kosti jafn mikinn sess og blessaður svefninn,“ segir hann.

Veðurfarið getur haft áhrif á golftímabilinu, en breyting á staðartíma …
Veðurfarið getur haft áhrif á golftímabilinu, en breyting á staðartíma á Íslandi gæti haft áhrif að sögn Björns Víglundssonar, formanns Golfklúbbs Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Björn nefnir að í sumum löndum hafi lengi verið við lýði sumar- og vetrartími. Hann segir að sú skipan mála gæti verið til þess að sætta öll sjónarmið hvað breytingar á klukku hér á landi varðar.

„Það tæki tillit til allra sjónarmiða. Það eru aðallega þessir haust- og vetrarmánuðir sem rætt er um í ljósi þess hve miklu minni birtan er þá. Margar aðrar þjóðir hafa leyst þetta svona og þetta gæti verið til þess fallið að sætta öll sjónarmið,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert