Þegar Auðunn Freyr Ingvarsson hætti sem framkvæmdastjóri Félagsbústaða sl. haust hafði verið megn óánægja með störf hans fyrir félagið. Birtist sú óánægja í könnun sem Maskína gerði meðal starfsmanna. Kvaðst mikill meirihluti svarenda ósáttur við framkvæmdastjórann.
Auðunn Freyr var ráðinn framkvæmdastjóri í desember 2013 og lét af störfum í október síðastliðnum.
Greindi hann samstarfsmönnum sínum frá starfslokum í starfsmannaferð. Kvaðst hann vilja axla ábyrgð á störfum sínum. Hafði þá mikið verið fjallað um framúrkeyrslu við endurgerð 52 íbúða í eigu Félagsbústaða á Írabakka.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að eftir að Auðunn Freyr var hættur störfum kom tilkynning frá Félagsbústöðum þar sem rifjað var upp að í maí 2016 hefði stjórn og framkvæmdastjóri Félagsbústaða óskað eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að hún gerði úttekt á viðhaldsverkefni félagsins við Írabakka 2-16 árin 2012-2016.
„Fyrir lá að ýmsar brotalamir höfðu verið á framkvæmd og skipulagi verkefnisins... Heildarkostnaður Félagsbústaða vegna þessara framkvæmda reyndist að lokum 728 milljónir króna sem er 330 milljónir króna umfram þær heimildir sem stjórnin veitti á framkvæmdatímanum,“ sagði m.a. í tilkynningunni.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins átti brotthvarf Auðuns Freys sér dýpri rætur en skýrast af framúrkeyrslu við einstök verkefni.