Stjórnarformaður Glitnis Holdco fær sem samsvarar 820 þúsund krónum á dag fyrir vinnu sína sem stjórnarformaður félagsins á þessu ári og almennir stjórnarmenn fá um 680 þúsund krónur á dag. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins, en blaðið hefur að sögn undir höndum tillögur fyrir aðalfund Glitnis á fimmtudag þar sem framangreint kemur fram.
Fram kemur að Mike Wheeler, stjórnarformaður Glitnis, fái 30 þúsund evrur greiddar, sem samsvarar 4,1 milljón króna, fyrir vinnu sína á árinu, sé hún að hámarki fimm heilir starfsdagar á árinu. Almennir stjórnarmenn, þeir Steen Parsholt og Tom Grøndahl, fái 20 þúsund evrur hvor, um 2,7 milljónir króna, fyrir að hámarki fjögurra daga vinnu á ári. Þurfi stjórnarmennirnir að vinna umfram það fær hver þeirra greiddar fimm þúsund evrur aukalega á dag, um 680 þúsund krónur.
Tímakaup Wheeler nemur því um 102 þúsund krónum en Parsholt og Grøndahl um 85 þúsund krónum á tímann. Stjórnarmennirnir hafa áður fengið yfir 600 milljóna króna bónus fyrir störf sín fyrir Glitni og þær innheimtur sem orðið hafa á eignarsafni Glitnis.
Glitnir HoldCo var stofnað eftir nauðasamning slitabús Glitnis og samkomulag um greiðslu stöðugleikaframlags til ríkisins í árslok 2015. Hlutverk félagsins var að umbreyta óseldum eignum þess í reiðufé og greiða út til hluthafa sem eru að stærstum hluta erlendir vogunarsjóðir. Stærsti hluthafi Glitnis, með 20% hlut, er Taconic Capital, sem er jafnframt næststærsti hluthafi Arion banka, og á tæplega 10% hlut í bankanum.
Að því er fram kemur í umfjöllum Viðskiptablaðsins er nú nær eingöngu eftir reiðufé í Glitni. Því hætti félagið hefðbundnum daglegum rekstri Glitnis í lok janúar 2018 og gerði starfslokasamning við þá fimm starfsmenn sem eftir voru hjá Glitni. Þeir hugðust þó vera félaginu innan handar næstu sex mánuði yrði þess þörf. Alls nam launakostnaður Glitnis fyrir árið 1,1 milljón evra, um 150 milljónum króna á árinu 2018, en þar af námu laun stjórnar og forstjóra um 400 þúsund evrum sem samsvarar um 55 milljónum króna. Meðalfjöldi starfsmanna á árinu 2018 voru 3. Annar rekstrarkostnaður nam um 700 þúsund evrum, tæplega 100 milljónum króna.
Samkvæmt ársreikningi Glitnis námu eignir félagsins að undanskildu reiðufé 367 þúsund evrum um áramótin, um 50 milljónum króna. Þá nam reiðufé sem félagið heldur á um 16 milljónum evra, eða um 2,2 milljörðum króna.