Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna farþega í annarlegu ástandi um borð í flugvél Icelandair sem var á leið til Stokkhólms í Svíþjóð í morgun. Þetta staðfestir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is vegna málsins.
Samkvæmt farþega sem mbl.is ræddi við hófust lætin í manninum, sem var íslenskur, strax í rútunni á leið út í vél. Hann hafi svo byrjað að áreita konu sem sat í sætinu við hliðina á honum, sem fékk að lokum að færa sig í annað sæti. Þá hóf maðurinn að áreita konu sem sat í sætaröðinni fyrir aftan, en hún hafði greint áhöfn vélarinnar frá athæfi mannsins.
Vitnið sem mbl.is ræddi við sagði ekki hægt að hafa orðbragðið sem maðurinn viðhafði eftir, en það hafi borið vott um mikla kvenfyrirlitningu.
Þegar lögregla hafi mætt á svæðið til að handtaka manninn hafi hann gert sér lítið fyrir og kýlt lögregluþjón í andlitið. Eftir talsverð átök var maðurinn síðan leiddur út í járnum og fór vélin í loftið rúmlega hálftíma á eftir áætlun vegna atviksins.