Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, segir ekki á dagskrá að einkavæða Landsvirkjun. Þetta kemur fram í tísti frá henni á Twitter, en þar svarar hún Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi ráðherra vinstri grænna, sem sagði í gær að hann teldi að kominn væri í gang „einkavæðingarkapall orkugeirans“ í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að kaupa hlut Landsvirkjunar í Landsneti.
Ögmundur sagði á heimasíðu sinni í gær að með kaupum á hlut Landsvirkjunar í Landsneti sé verið að færa peninga úr einum vasa í annan og að þar hangi sitthvað á spýtunni sem snúi að einkavæðingu raforkugeirans.
„„Látum þá neita því“ er auðvitað elsta trixið í bókinni. Ég sé að Ögmundur Jónasson dregur miklar ályktanir af ræðu minni á ársfundi Landsvirkjunar. Einkavæðing Landsvirkjunar er ekki á dagskrá, svo það sé sagt,“ segir Þórdís í færslu sinni.
Bætir hún síðar við að orkuauðlindir séu þjóðareign þar sem þær séu á ríkislandi, eign sveitarfélaga séu þær á landi í eigu sveitarfélaga og í einkaeigu þegar þær eru á einkalandi.
Segir Þórdís þetta engin ný tíðindi eða stefnubreytingu og að smávirkjanir feli í sér umtalsverð tækifæri fyrir bændur. Spyr hún hvort Ögmundur vilji að þessar auðlindir séu ríkisvæddar.