Foreldrar grunnskólabarna í norðanverðum Grafarvogi virðast almennt óánægðir með hugmyndir skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um breytingar í skólamálum. Kom það fram á hitafundi stjórnenda sviðsins með foreldrum í Kelduskóla í gær. Breytingarnar felast í því að leggja niður skóla í Staðahverfi og sameina tvo skóla sem áður voru í fjórum hlutum.
Skóla- og frístundasvið er að rýna þróun nemendafjölda í grunnskólum í norðanverðum Grafarvogi. Það snertir tvo skóla; Kelduskóla, sem varð til við sameiningu Víkurskóla og Korpuskóla á sínum tíma, og Vættaskóla sem varð til við sameiningu Borgaskóla og Engjaskóla.
Samkvæmt upplýsingum Helga Grímssonar sviðsstjóra er nú 61 nemandi í Kelduskóla Korpu þar sem nemendur í 1.-7. bekk fá kennslu. Hann segir að þetta sé fámennasti grunnskólinn sem rekinn er af sveitarfélagi á suðvesturhorni landsins. Ekki sé hægt að halda úti þeim gæðum náms, kennslu og félagstenginga sem sviðið telji æskileg. Vinnuhugmyndin er að leggja skólann niður og aka börnunum í Vættaskóla.
Jafnframt mun gert ráð fyrir að sameina starfsemi Kelduskóla Vík við Vættaskóla Engi og Vættaskóla Borgir. Þéttingarreitir við Borgaskóla eru að byggjast upp, samkvæmt upplýsingum Helga, og vísbendingar um að það kalli á aukið húsnæði við skólann. Það valdi því að flutningar árganga á milli Borgaskóla og Engjaskóla á skólagöngunni verði meiri en æskilegt sé talið, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.