Vændiskaupendur verði nafngreindir

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert

„Maður skyldi ætla að nafngreining myndi hafa áhrif á þá sem velta fyrir sér þessum fyrirlitlegu viðskiptum og það finnst mér að við eigum að taka upp,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í umræðu um störf þingsins í dag, og vísaði þar til umfjöllunarefni Kveiks í gær: vændis.

Annar þingmaður Vinstri grænna hefur einnig tjáð sig um málið á Facebook í dag, en þar segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir að hægt sé að bregðast við aukningu á vændi með skýrum og afdráttarlausum hætti.

„Við getum ákveðið að herða viðurlög við vændiskaupum; birt nöfn vændiskaupenda og hækkað sektir. Hert viðurlög við því að kaupa aðgang að líkama annarrar manneskju. Til þess þarf pólitískan vilja. Ég er meira en til í það,“ skrifar Rósa Björk.

Bjarkey sagði sænsku leiðina hafa verið tekna upp hér á landi árið 2009, þar sem sala á vændi sé lögleg en kaupin ólögleg. „Refsingar við vændi eru þó allt of vægar hér á landi að mínu mati og enn ríkir nafnleynd í slíkum dómum ólíkt því sem tíðkast hjá frændum okkar í Svíþjóð þar sem vændiskaupendur eru nafngreindir.“

„Vændi er kynferðisofbeldi og það á að afgreiða það í dómskerfinu sem slíkt. Og til að það sé sagt þá skulum við aldrei tala öðruvísi en þannig að ábyrgðin liggur hjá þeim sem kaupa vændi. Ábyrgðin liggur þar og þar á hún að vera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert