Efling segir áform uppi um verkfallsbrot

Verkfall brestur á klukkan 10 í fyrramálið. Hótelrekendur ganga í …
Verkfall brestur á klukkan 10 í fyrramálið. Hótelrekendur ganga í störf þerna meðan á því stendur og Efling vill meina að slíkt sé verkfallsbrot. mbl.is/Hari

Efling stéttarfélag kallar eftir því að atvinnurekendur virði lög og réttindi starfsfólks sem leggur niður störf á morgun. Talsmenn félagsins segjast hafa orðið varir við áform um verkfallsbrot hjá hótelrekendum.

Félagið segir að hvort tveggja skilgreinist sem verkfallsbrot: þrýstingur á starfsmenn að sniðganga verkfallsboðun og það að ganga í störf starfsfólks í verkfalli.

Lögmaður Samtaka atvinnulífsins, Jón Rúnar Pálsson, segir í samtali við Morgunblaðið, að „yfirmenn, verkstjórar á hótelum og gistihúsum, eigendur og fjölskyldur þeirra, auk ófélagsbundinna starfsmanna,“ geti gengið í störf þerna í verkfallinu á morgun. 

„Áhyggjufullir hótelstarfsmenn hafa tjáð mér að það séu uppi áform um ýmis brot, svo sem að hindra starfsmenn í að fara í verkfall sem þrífa almenningsrými og sinna þvottum,“ er haft eftir Valgerði Árnadóttur, starfsmanni félagssviðs Eflingar, í tilkynningu frá félaginu.

„Sums staðar er verið að boða starfsmenn sem almennt vinna ekki við þrif til að mæta fyrr og sinna þeim með herbergisþernum, bæði til að ná að klára þrif fyrir kl. 10:00 og einnig eftir að verkfall hefst,“ segir Valgerður.

Ekki kemur fram hjá félaginu hvaða hótelrekendur hafa gert sig líklega til þessarar hegðunar en sagt er að „margar tilkynningar“ hafi borist á þessa lund, ekki síst hafi þeim verið gaukað að forystunni er Eflingarmenn gengu á milli vinnustaða á meðan atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fór fram í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert