Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sakaði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um hræsni á Alþingi í dag þar sem Jón Þór vildi fara yfir hvernig ráðherra hefur haldið utan um kjaramálin síðustu ár.
Jón sagði að Bjarni hefði lagt til árið 2016 að viðmiðunarárið á eigin launum væri 2006, eða tíu ár aftur í tímann. Hann hafi hins vegar sagt að ekki væri hægt að gera leiðréttingar tíu ár aftur í tímann í umræðu um verkföll heilbrigðisstarfsfólks árið 2015.
„Í dag krefst fjármálaráðherra þess að launahækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja séu dregnar til baka og það er gott, en fyrir minna en ári síðan greiddi hann atkvæði á Alþingi gegn tillögu Pírata um að launahækkanir þingmanna og ráðherra væru dregnar til baka til að fylgja almennri launaþróun, til að fylgja almenningi frá 2013, sem launafólk sem núna er að fara í verkfall hefur þurft að fylgja,“ sagði Jón og bætti við að það að þykjast vera betri en maður er, með því að fordæma það sem maður gerir sjálfur sé hræsni.
„Mig langar því að spyrja fjármálaráðherra hvort honum finnist hann vera hræsnari fyrir að krefjast þess að launahækkanir annarra séu dregnar til baka eftir að hafa greitt atkvæði gegn því að hans eigin laun væru leiðrétt í samræmi við launaþróun launafólks og fyrir að segja við heilbrigðisstarfsfólk í verkföllum að ekki sé hægt að leiðrétta laun tíu ár aftur í tímann en leggja svo til ári síðar að hans eigin laun verði leiðrétt tíu ár aftur í tímann.“
Bjarni sagði í hæðnistón að það yrði ekki annað sagt um Pírata en að þeir færi umræðuna á þingi á hærra og hærra plan.
„Þegar menn eru ekki bornir þeim sökum að hafa beinlínis stolið af almannafé eru þeir kallaðir hræsnarar. Þingmaður var auðvitað ekki að gera neitt annað en að segja að fjármálaráðherrann væri hræsnari eftir að hafa kokkað upp þau ósannindi að ráðherrann hefði lagt eitthvað til varðandi eigin laun,“ sagði Bjarni.
Bjarni benti á að þingið hafi ekki fjallað um laun þingmanna eða ráðherra. Kjararáð hefði séð um það þar til það var lagt niður. „Tillagan sem nú liggur fyrir þinginu er um að byggja á niðurstöðu kjararáðs frá árinu 2016 og í krónutölu gildir enn þá úrskurður kjararáðs frá 2016. Hann hefur ekki breyst um eina krónu frá þeim tíma.“
Bjarni sagði rangt að þingmenn hafi notið hækkana á launum sínum umfram aðra hópa, jafnvel þótt einungis sé horft til ársins 2013. Fram hefði komið að með því að láta launin haldast óbreytt út árið 2018 væru þingmenn, og hópar sem heyrðu undir kjararáð, komnir á sömu launaþróunarlínu og aðrir hópar með 2013 sem viðmiðunartímabil.
Ráðherra sagðist ekki geta setið undir því að hann sem ráðherra eða aðrir þingmenn séu að ráðskast með laun þingmanna. „Við erum ekki ákvörðunaraðili um eigin kjör. Við höfum útvistað því verkefni til kjararáðs og skapað lagagrundvöll fyrir það,“ sagði Bjarni.
„Nú liggur frumvarp [forseti hringir] fyrir þinginu um að byggja á niðurstöðunum frá 2016 og láta síðan framhaldið ráðast af meðalþróun opinberra starfsmanna.“