Sakaði fjármálaráðherra um hræsni

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Þór Ólafs­son, þingmaður Pírata, sakaði Bjarna Bene­dikts­son fjár­málaráðherra um hræsni á Alþingi í dag þar sem Jón Þór vildi fara yfir hvernig ráðherra hef­ur haldið utan um kjara­mál­in síðustu ár.

Jón sagði að Bjarni hefði lagt til árið 2016 að viðmiðun­ar­árið á eig­in laun­um væri 2006, eða tíu ár aft­ur í tím­ann. Hann hafi hins veg­ar sagt að ekki væri hægt að gera leiðrétt­ing­ar tíu ár aft­ur í tím­ann í umræðu um verk­föll heil­brigðis­starfs­fólks árið 2015.

„Í dag krefst fjár­málaráðherra þess að launa­hækk­an­ir for­stjóra rík­is­fyr­ir­tækja séu dregn­ar til baka og það er gott, en fyr­ir minna en ári síðan greiddi hann at­kvæði á Alþingi gegn til­lögu Pírata um að launa­hækk­an­ir þing­manna og ráðherra væru dregn­ar til baka til að fylgja al­mennri launaþróun, til að fylgja al­menn­ingi frá 2013, sem launa­fólk sem núna er að fara í verk­fall hef­ur þurft að fylgja,“ sagði Jón og bætti við að það að þykj­ast vera betri en maður er, með því að for­dæma það sem maður ger­ir sjálf­ur sé hræsni.

Mig lang­ar því að spyrja fjár­málaráðherra hvort hon­um finn­ist hann vera hræsn­ari fyr­ir að krefjast þess að launa­hækk­an­ir annarra séu dregn­ar til baka eft­ir að hafa greitt at­kvæði gegn því að hans eig­in laun væru leiðrétt í sam­ræmi við launaþróun launa­fólks og fyr­ir að segja við heil­brigðis­starfs­fólk í verk­föll­um að ekki sé hægt að leiðrétta laun tíu ár aft­ur í tím­ann en leggja svo til ári síðar að hans eig­in laun verði leiðrétt tíu ár aft­ur í tím­ann.

Umræðan stöðugt að fara á hærra plan

Bjarni sagði í hæðnistón að það yrði ekki annað sagt um Pírata en að þeir færi umræðuna á þingi á hærra og hærra plan. 

Þegar menn eru ekki born­ir þeim sök­um að hafa bein­lín­is stolið af al­manna­fé eru þeir kallaðir hræsn­ar­ar. Þingmaður var auðvitað ekki að gera neitt annað en að segja að fjár­málaráðherr­ann væri hræsn­ari eft­ir að hafa kokkað upp þau ósann­indi að ráðherr­ann hefði lagt eitt­hvað til varðandi eig­in laun,“ sagði Bjarni.

Bjarni benti á að þingið hafi ekki fjallað um laun þing­manna eða ráðherra. Kjararáð hefði séð um það þar til það var lagt niður. „Til­lag­an sem nú ligg­ur fyr­ir þing­inu er um að byggja á niður­stöðu kjararáðs frá ár­inu 2016 og í krónu­tölu gild­ir enn þá úr­sk­urður kjararáðs frá 2016. Hann hef­ur ekki breyst um eina krónu frá þeim tíma.

Bjarni sagði rangt að þing­menn hafi notið hækk­ana á laun­um sín­um um­fram aðra hópa, jafn­vel þótt ein­ung­is sé horft til árs­ins 2013. Fram hefði komið að með því að láta laun­in hald­ast óbreytt út árið 2018 væru þing­menn, og hóp­ar sem heyrðu und­ir kjararáð, komn­ir á sömu launaþró­un­ar­línu og aðrir hóp­ar með 2013 sem viðmiðun­ar­tíma­bil.

Ráðherra sagðist ekki geta setið und­ir því að hann sem ráðherra eða aðrir þing­menn séu að ráðskast með laun þing­manna. „Við erum ekki ákvörðun­araðili um eig­in kjör. Við höf­um út­vistað því verk­efni til kjararáðs og skapað laga­grund­völl fyr­ir það,“ sagði Bjarni. 

Nú ligg­ur frum­varp [for­seti hring­ir] fyr­ir þing­inu um að byggja á niður­stöðunum frá 2016 og láta síðan fram­haldið ráðast af meðalþróun op­in­berra starfs­manna.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka