„Hún sýndi fljótlega að hún vildi komast út, það vantaði ekki. Um leið og hún fór aðeins að braggast var hún byrjuð að gera tilraunir til þess að sleppa,“ segir Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og framkvæmdastjóri Húsdýragarðsins, í samtali við mbl.is.
Álftin, sem bjargað var við Urriðakotsvatn vegna Red Bull-dósar sem hún var með fasta í gogginum, slapp úr Styrmishöll í morgun og flaug á brott.
„Hún fann gat á búrinu. Þetta var gáfuð álft,“ segir Þorkell. „Styrmishöll hafði orðið fyrir tjóni vegna snjós í vetur. Netið er svo fínt að snjórinn kemst ekki í gegn og það var ekki búið að koma búrinu í samt lag eftir veturinn.“
Þorkell segir starfsfólk Húsdýragarðsins ekki hafa neinar sérstakar áhyggjur af álftinni þótt hún hafi yfirgefið þau á undan áætlun. „Hún hefði að öllum líkindum ekki verið hjá okkur nema í nokkra daga í viðbót.“
„Fyrsta sólarhringinn var hún mjög slöpp og hreyfði sig lítið sem ekkert en hún var farin að braggast mjög hratt. Hún eyddi tímanum í að éta og snyrta sig til skiptis. Hluti af vandamálinu var sá að hún hafði ekki getað snyrt á sér fiðrið vegna dósarinnar og þar af leiðandi ekki getað gert sig nógu vatnshelda,“ segir Þorkell.
Starfsfólk Húsdýragarðsins hafði ekki heyrt af því að sést hefði til álftarinnar, en líklegt þykir að hún snúi aftur á sín fyrri heimkynni í Garðabæ. „Ég er ánægður með að hún skyldi að minnsta kosti hafa braggast það vel að hún gat tekið sig á loft. Vonandi á hún bara gott og farsælt líf fram undan.“