Icelandair fylgist með rannsókn slyssins

Icelandair á von á sex nýjum Air Boeing 737 MAX …
Icelandair á von á sex nýjum Air Boeing 737 MAX á árinu, en flugvél af þeirri gerð hrapaði í Eþíópíu í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Fram­kvæmda­stjóri rekstr­ar­sviðs Icelanda­ir seg­ir flug­fé­lagið fylgj­ast grannt með fram­vindu rann­sókn­ar á til­drög­um flug­slyss­ins í Eþíóp­íu í morg­un en vél­in sem hrapaði var ný­leg af gerðinni Boeing 737 MAX-8. Þrjár slík­ar vél­ar eru í notk­un hjá Icelanda­ir og á fé­lagið von á fleiri slík­um.

Boeing 737 MAX-farþegaþotan er ein nýj­asta og tækni­leg­asta farþegaþota sem nú er á markaði. Boeing hef­ur hins veg­ar sætt gagn­rýni und­an­farið vegna mögu­legra tæknigalla á vél­inni, en farþegaþotan kom fyrst á markað árið 2017. Varð gagn­rýn­in ekki hvað síst há­vær eft­ir að vél Lyon Air hrapaði í fyrra með þeim af­leiðing­um að all­ir 189 sem um borð voru lét­ust.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Jens Þórðar­son, fram­kvæmda­stjóri rekstr­ar­sviðs Icelanda­ir. mbl.is/​Stein­grím­ur Eyj­ólfs­son

„Við vit­um lítið um hvað gerðist í morg­un og það er erfitt að tengja það við vél­ina sér­stak­lega. Við fylgj­umst með og sjá­um hvaða upp­lýs­ing­ar við fáum frá yf­ir­völd­um og fram­leiðenda vél­ar­inn­ar,“ seg­ir Jens Þórðar­son.

Hann seg­ir að hjá Icelanda­ir sé alltaf farið eft­ir ýtr­ustu ör­ygg­is­stöðlum og farið vel yfir vél­arn­ar fyr­ir flug­tak. „Við bregðumst við ef eitt­hvað er og miðað við það ferli sem við erum með þá er eng­in ástæða til ann­ars en að fljúga vél­un­um,“ seg­ir hann, spurður hvort til­efni sé til þess að bregðast við vegna slyss­ins í morg­un. Bend­ir hann á að um 350 vél­ar af þess­ari gerð séu í notk­un í heim­in­um í dag, og séu því lík­lega yfir þúsund flug far­in á hverj­um degi með vél­um þess­ar­ar gerðar.

„Þegar svona at­b­urður verður tek­ur tíma að greina hvað kom upp. Við bíðum eft­ir frek­ari vís­bend­ing­um og bregðumst við ef eitt­hvað kem­ur upp,“ seg­ir Jens en bæt­ir við að rekst­ur vél­anna gangi vel hjá Icelanda­ir. „Það geng­ur vel að reka vél­arn­ar og það er ekk­ert sem bend­ir sér­stak­lega til þess að vél­in sé or­sök í þessu.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert