Icelandair fylgist með rannsókn slyssins

Icelandair á von á sex nýjum Air Boeing 737 MAX …
Icelandair á von á sex nýjum Air Boeing 737 MAX á árinu, en flugvél af þeirri gerð hrapaði í Eþíópíu í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair segir flugfélagið fylgjast grannt með framvindu rannsóknar á tildrögum flugslyssins í Eþíópíu í morgun en vélin sem hrapaði var nýleg af gerðinni Boeing 737 MAX-8. Þrjár slíkar vélar eru í notkun hjá Icelandair og á félagið von á fleiri slíkum.

Boeing 737 MAX-farþegaþotan er ein nýj­asta og tækni­leg­asta farþegaþota sem nú er á markaði. Boeing hef­ur hins veg­ar sætt gagn­rýni und­an­farið vegna mögu­legra tæknigalla á vél­inni, en farþegaþotan kom fyrst á markað árið 2017. Varð gagn­rýn­in ekki hvað síst há­vær eft­ir að vél Lyon Air hrapaði í fyrra með þeim af­leiðing­um að all­ir 189 sem um borð voru lét­ust.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair. mbl.is/Steingrímur Eyjólfsson

„Við vitum lítið um hvað gerðist í morgun og það er erfitt að tengja það við vélina sérstaklega. Við fylgjumst með og sjáum hvaða upplýsingar við fáum frá yfirvöldum og framleiðenda vélarinnar,“ segir Jens Þórðarson.

Hann segir að hjá Icelandair sé alltaf farið eftir ýtrustu öryggisstöðlum og farið vel yfir vélarnar fyrir flugtak. „Við bregðumst við ef eitthvað er og miðað við það ferli sem við erum með þá er engin ástæða til annars en að fljúga vélunum,“ segir hann, spurður hvort tilefni sé til þess að bregðast við vegna slyssins í morgun. Bendir hann á að um 350 vélar af þessari gerð séu í notkun í heiminum í dag, og séu því líklega yfir þúsund flug farin á hverjum degi með vélum þessarar gerðar.

„Þegar svona atburður verður tekur tíma að greina hvað kom upp. Við bíðum eftir frekari vísbendingum og bregðumst við ef eitthvað kemur upp,“ segir Jens en bætir við að rekstur vélanna gangi vel hjá Icelandair. „Það gengur vel að reka vélarnar og það er ekkert sem bendir sérstaklega til þess að vélin sé orsök í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka