Talningu í atkvæðagreiðslu um verkföll hjá hluta félagsmanna Eflingar lauk um hádegi í dag. Félagsmenn Eflingar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða boðun verkfalla meðal starfsfólks á hótelum, í rútufyrirtækjum og hjá Almenningsvögnum Kynnisferða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Heildarkjörsókn nam um 35% og náði í öllum tilfellum 20% lágmarksþátttökuþröskuldi. Um 92% þeirra sem tóku afstöðu samþykktu verkfallsboðanir, eða 1.127. 103 greiddu atkvæði gegn verkfallsboðunum. Þá tóku 33 ekki afstöðu.
„Við erum afar ánægð með þátttöku og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Félagsmenn okkar eru á einu máli um að aðgerða sé þörf. Kröfur okkar eru sanngjarnar og félagsmenn eru tilbúnir að fylgja þeim eftir af krafti,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í fréttatilkynningunni.
Á vef Eflingar segir að fyrsti hluti aðgerðanna sé hefðbundið verkfall þar sem ekki er mætt til vinnu á ákveðnum dögum frá miðnætti til miðnættis. Fyrstu verkfallsaðgerðir þess hlutar eru boðaðar í sólarhring 22. mars, síðan í tvo sólarhringa 28.-29. mars og þrjá sólarhringa dagana 3.-5. apríl, 9.-11. apríl, 15.-17. apríl og 23.-25. apríl. Þá er boðað ótímabundið verkfall frá 1. maí.
Annar hluti aðgerðanna felst í örverkföllum eða vinnutruflun. Frá 18. mars til 30. apríl munu rútubílstjórar eingöngu vinna þau störf sem tilgreind eru í starfslýsingu. Frá 23. mars til 30. apríl munu bílstjórar ekki rukka í strætisvagna né telja farþega og frá 6. apríl mæta þeir bílstjórar ekki til vinnu fyrir hádegi.
Annar hluti aðgerða hótelstarfsmanna felst í því að vinna engin störf sem ekki eru tilgreind í starfslýsingu frá og með 18. mars til 30. apríl, frá 23. mars til 30. apríl sinna þeir ekki klósettþrifum eða þrifum á sameiginlegum rýmum. Frá 30. mars til 30. apríl verða herbergi gesta sem ekki hafa tékkað sig út ekki þrifin og ekki starfað við morgunverðarþjónustu. Engin þvottaþjónusta verður frá 26. apríl til 30. apríl. Aðgerðirnar taka til 40 hótela á höfuðborgarsvæðinu.