Dómur MDE kom „verulega á óvart“

Dómarar við Landsrétt munu ekki kveða upp dóma út vikuna. …
Dómarar við Landsrétt munu ekki kveða upp dóma út vikuna. Framhaldið mun svo skýrast er nær dregur vikulokum, segir Davíð Þór. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Þetta kom mér verulega á óvart,“ segir Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE), um dóm MDE varðandi Landsrétt sem kveðinn var upp í morgun.

Hann segist ekki ætla að tjá sig frekar um málið á þessu stigi, þar sem tíma muni þurfa til að melta niðurstöðu dómstólsins, en eins og fram hefur komið munu hvorki Davíð Þór né aðrir dómarar við Landsrétt kveða upp dóma út vikuna.

„Við erum að ræða þetta núna hvernig þetta verður tæklað, það verða ekki kveðnir upp neinir dómar í þessari viku og svo verður bara undir lok vikunnar tekin ákvörðun um það hvernig þessu verður fram haldið. Ég held að þetta sé nú það eina sem þú færð upp úr mér á þessu stigi,“ segir Davíð Þór.

Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar.
Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar. mbl.is/RAX

Sagði MDE ekki geta ekki haggað dómaraskipan

Grein sem að Davíð Þór ritaði síðasta sumar, „Um hvað snýst Landsréttarmálið?“, hefur verið rifjuð upp í umræðum um dóm MDE í dag, en hana skrifaði dómarinn á meðan hann var í leyfi frá embætti sínu við Landsrétt vegna starfa sinna sem settur ríkissaksóknari vegna endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins fyrir Hæstarétti.

Í þeirri grein sagði Davíð meðal annars, eins og fjallað var um á mbl.is fyrsta dag júlímánaðar í fyrra, að þrátt fyrir að dómur MDE félli gegn íslenska ríkinu, eins og raunin varð myndi það ekki hafa þau áhrif að „úr gildi falli allir dómar sem þeir dómarar, sem ráðherra setti á listann í trássi við álit dómnefndar, hafa átt þátt í að kveða upp“.

Þá ritaði hann einnig, að áfellisdómur frá MDE gæti ekki haggað við skipan þeirra fjögurra dómara sem ráðherra setti á listann.

„[Þau] eru áfram skipuð dómarar við Landsrétt og við þeim verður ekki haggað nema með dómi í máli sem íslenska ríkið höfðar gegn þeim, sbr. 61. gr. stjskr. Vandséð er aftur á móti á hvaða grundvelli það yrði gert, því þeir einstaklingar sem þessum embættum gegna hafa ekki annað af sér gert en að sækja um embætti sem forseti Íslands skipaði þá að lokum til að gegna. Þá gefur framganga þeirra í starfi hingað til ekkert tilefni til málshöfðunar gegn þeim,“ ritaði Davíð Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Hallmundur Kristinsson: Jamm
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert