Mótmælendur úr röðum umsækjenda um alþjóðlega vernd og stuðningsmanna þeirra ætla að gista á Austurvelli í nótt, en þar hafa mótmæli þeirra staðið yfir frá því kl. 17 í dag.
„Að sofa í kulda á Austurvelli er mun betra en Ásbrú,“ segir í færslu á Facebook-síðunni „Refugees in Iceland“. Þar er óskað eftir teppum, tjöldum og dýnum, frá þeim sem vilji sýna mótmælendum stuðning.
Mótmælendur fara fram á að brottvísunum hælisleitenda verði hætt, að allir hælisleitendur fái efnismeðferð hér á landi og að Dyflinnarreglugerðin sé ekki notuð, að hælisleitendur fái rétt til að vinna og njóti jafns aðgangs að heilbrigðisþjónustu, auk þess sem dvalarstað hælisleitanda á Ásbrú verði lokað.
Myndskeiðið hér að neðan var tekið á ellefta tímanum í kvöld, og þar sést að þó nokkur fjöldi mótmælenda er fyrir framan Alþingishúsið.
Hátt í 200 manns söfnuðust saman á Austurvelli í dag hælisleitendum til stuðnings, þegar mest var, og fór allt friðsamlega fram eftir því sem mbl.is kemst næst. Um er að ræða fimmtu mótmæli hópsins á skömmum tíma.