„Lögreglan stóð sig vel“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður MIðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður MIðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Lögreglan stóð sig vel,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, á Facebook-síðu sinni í dag vegna aðgerða lögreglunnar á Austurvelli í Reykjavík í gær vegna mótmæla hælisleitenda vegna aðbúnaðar þeirra.

Fram kom í fréttum í gær að fyrirmælum lögreglunnar hefði ekki verið hlýtt og komið til stimpinga. Meðal annars þegar kom að því að fjarlægja tjöld sem mótmælendur höfðu sett upp á Austurvelli. Þá hefði aftur komið til stimpinga síðar um daginn þegar svo virtist sem verið væri að hlaða bálköst á Austurvelli með vörubrettum og pappakössum.

Lögreglan segir að þegar lögreglumenn hafi haft afskipti af hinum meinta bálkesti hafi lögreglumenn orðið fyrir árásum sem svarað hafi verið með beitingu piparúða. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hafa gagnrýnt þá framgöngu lögreglu á Facebook.

Kolbeinn hefur óskað eftir því að málið verði tekið fyrir á fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag hvar hann á sæti. Gunnar Bragi segir hins vegar að hælisleitendum beri eins og öðrum hér á landi að virða lög og reglur sem og fyrirmæli lögreglu.

„Formaður Samfylkingarinnar stillir sér upp með þeim sem óhlýðnast skipunum lögreglu, sjálfsagt til að keppa við pírata um athyglina. Lögreglan gerði vel að halda uppi reglu og ber að þakka lögreglumönnunum það,“ segir Gunnar Bragi ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert