Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu um málsmeðferð dómsmálaráðherra við skipan dómara í Landsrétt er áfellisdómur yfir athöfnum ráðherrans. Með þessu eru staðfestar ítrekaðar viðvaranir þingflokks Pírata, fyrst við skipan dómara í Landsrétt árið 2017 og svo í umræðu um vantrauststillögu á dómsmálaráðherra ári síðar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokki Pírata.
Þar segir enn fremur, að dómurinn sýni svo ekki verður um villst að með ólögmætri skipan sinni hafi dómsmálaráðherra stuðlað að mannréttindabrotum í garð allra þeirra sem hafi þurft að sæta málsmeðferð af hálfu ólöglega og pólitískt skipaðra dómara.
„Píratar hafa ítrekað bent á að skipanin væri ólögmæt og athafnir Sigríðar Á. Andersen óforsvaranlegar og brot á 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Það hefur nú verið staðfest bæði af Hæstarétti og af Mannréttindadómstól Evrópu.
Landsréttarmálið er skýrt dæmi um óeðlileg afskipti framkvæmda[r]valdsins af dómsvaldinu og pólitíska spillingu. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í dag munu koma til með að skera úr um traust almennings til Alþingis, dómstóla og framkvæmda[r]valdsins til framtíðar,“ segir þingflokkurinn í yfirlýsingu.
Þá kemur fram, að þingflokkur Pírata geri kröfu um tafarlausa afsögn dómsmálaráðherra. Þá hafi Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kallað eftir því að dómsmálaráðherra komi á opinn fund í allsherjar- og menntamálanefnd vegna dómsins og að fram fari sérstakar umræður við forsætisráðherra á Alþingi um áhrif dómsins á réttarríkið á Íslandi.