„Ég hef staðið með Sigríði Andersen í hverju skrefi sem hún hefur tekið í þessu máli,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um þá ákvörðun Sigríðar að stíga til hliðar sem dómsmálaráðherra.
„Þessir flokkar sem starfa saman núna hafa mjög mikla trú á þessu stjórnarsamstarfi. Þegar við setjumst saman niður og ræðum stöðu eins og þá sem nú er komin upp þá hugsum við fyrst og fremst að fá frið til að leiða vandasöm verkefni til lykta.
Ég sagði við mína samstarfsmenn að það þyrfti að melta niðurstöðu dómsins. Við tókum gærdaginn í það og það var ekkert ákveðið með þessa hluti þegar við vöknuðum í morgun. Hún tekur þessa ákvörðun á eigin forsendum og mér finnst það virðingarvert,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að í hans huga væru nú tveir kostir í stöðunni þegar skipaður verður nýr dómsmálaráðherra.
„Annars vegar fáum við ráðherra úr ríkisstjórninni til þess að gegna embættinu, eða þá að einhver úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins komi í stól dómsmálaráðherra.“
Bjarni er harðorður í garð Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar úrskurð dómstólsins í gær um skipun dómara í Landsrétt.
„Mér finnst mikilvægt að við veltum upp þeirri spurningu hvort við höfum framselt túlkunarvald yfir íslenskum lögum til Evrópu. Ég hélt ekki. Eitt af stóru álitamálunum yfir þessum dómi snýr að því hvar hann dregur mörkin í afskiptum af niðurstöðum í aðildarríkjum,“ sagði Bjarni.
Hann vill að stjórnvöld reyni á það að áfrýja málinu til æðra stigs.
„Niðurstöður dómstólsins hafa oft verið mjög umdeildar. Bretar hafa rætt það að segja sig frá honum og nú finnst mér vera komið upp mál þar sem við hljótum að spyrja okkur hvort stigið hafi verið yfir línuna af dómstól sem ekki er æðsti dómstóll á Íslandi. Þeir eru innanlands. Meðal annars af þessari ástæðu er ég þeirrar skoðunar að það verði að reyna á það sjónarmið um að hér hafi menn gengið allt, allt of langt,“ sagði Bjarni.
Spurður um stöðu Landsréttar segir Bjarni að nú verði hægt að greiða úr málinu.
„Dómstóllinn þarf að íhuga þessa stöðu sem komin er upp. En ég vil ekki að nokkur maður haldi að mér þyki þetta léttvægt. Þetta er alvarlegt mál og ráðherra stígur til hliðar til þess að hægt sé að greiða úr málinu, svo aðkoma hennar á fyrri stigum sé ekki að þvælast fyrir,“ sagði Bjarni.
Hann sagði það undir hverjum og einum komið, sem hafa verið í umfjöllun í Landsrétti, hvort viðkomandi telji rétt að fara fram á endurupptöku mála og meta það hvort önnur niðurstaða væri líkleg.
Að lokum sagði Bjarni það ekki vera klukkutímaspursmál hvenær myndi liggja fyrir um næsta dómsmálaráðherra. Líklegt væri að boðað yrði til ríkisráðsfundar á morgun þar sem næstu skref í málinu munu verða metin.
Fréttin hefur verið uppfærð.