„Ég tel niðurstöðuna tala algjörlega sínu máli,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem kveðinn var upp í gær sem úrskurðaði að dómaraskipun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í Landsrétt hafi brotið gegn mannréttindasáttmálanum.
Vilhjálmur er verjandi manns sem stefnt hafði verið fyrir Landsrétt. Hann taldi að seta Arnfríðar Einarsdóttur í Landsrétti hefði verið brot á lögum mannréttindasáttmálans vegna skipunar dómsmálaráðherra á Arnfríði og þremur öðrum dómurum í Landsrétt, en hæfnisnefnd taldi aðra hæfari og voru lög því brotin við skipunina.
Hæstiréttur taldi setu Arnfríðar ekki andstæða lögum og var því óskað eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu tæki málið fyrir. Úrskurðurinn í gær sagði að dómaraskipunin hefði verið brot á sjöttu grein mannréttindasáttmálans sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.
Vilhjálmur staðfesti við mbl.is að hann hafi þegar skotið ellefu öðrum málum til Mannréttindadómstólsins. Eiga þau öll sameiginlegt að hafa verið á borði þeirra dómara sem voru ekki á meðal 15 hæfustu að mati hæfnisnefndar við skipun dómara í Landsrétt.
Málin voru þegar komin á borð Mannréttindadómstólsins áður en dómurinn var kveðinn upp í gær. Hann segir að dómurinn í gær verði fordæmisgefandi fyrir þau mál sem á eftir koma.
Vilhjálmur vill annars ekki tjá sig efnilega um niðurstöðu dómsins í gær og segist taka undir allan þann rökstuðning sem niðurstöður í dómi Mannréttindadómstólsins setja fram.
„Ég lýsi yfir ánægju minni með það hversu hratt og örugglega dómstóllinn leysti úr þessu máli. Það sýnir að um virkt réttarúrræði er að ræða sem ber að nota í viðamiklum málum,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.