Þingflokksfundur Vinstri grænna hófst í Alþingishúsinu klukkan 13. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi stuttlega við fjölmiðla fyrir fundinn en sagðist ekkert ætla að tjá sig strax.
„Ég ætla að spjalla við ykkur þegar ég er búin að tala við þingflokkinn minn,“ sagði Katrín þegar hún kom inn í Alþingishúsið. Hún hefur ekki enn tjáð sig um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem í gær úrskurðaði að skipun dómara í Landsrétt hafi brotið gegn Mannréttindasáttmálanum.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist fyrir fundinn ætla að bíða eftir því hvað forsætisráðherra hefði að segja um málið áður en hún myndi ræða við fjölmiðla.
Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins var einnig á dagskrá klukkan 13. Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sagðist ætla að bíða með að tjá sig um málið þangað til eftir fundinn.
Ekkert hefur heyrst frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra eftir að dómur Mannréttindadómstólsins féll í gær. Hann kom í Alþingishúsið rétt fyrir klukkan hálftvö og sagðist þá vera orðinn of seinn á fund.
Einu stjórnarþingmennirnir sem hafa tjáð sig um málið eru Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.