Hæstiréttur bregst við dómi MDE

Hæstiréttur Íslands hefur brugðist við dómi MDE.
Hæstiréttur Íslands hefur brugðist við dómi MDE. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur Íslands mun í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu spyrja aðila allra hæstaréttarmála, sem tekin voru fyrir af einhverjum þeirra fjögurra dómara sem voru ekki á upphaflegum 15 manna lista hæfisnefndar um skipan dómara við Landsrétt, hvort þeir muni í ljósi dóms MDE fara fram á að dómur Landsréttar verði ómerktur.

Þetta kemur fram á vef Hæstaréttar og einnig það að slíkri fyrirspurn hafi þegar verið beint til aðila máls Glitnis Holdco gegn Stundinni og Reykjavík Media, en Ragnheiður Bragadóttir var einn dómaranna sem kváðu upp Landsréttardóm í því máli.

Allir aðilar málsins tilkynntu að þeir myndu ekki fara fram á ómerkingu Landsréttardómsins og því er ekki tilefni til þess að fresta málinu um óákveðinn tíma, eins og Hæstiréttur segir að hefði þurft að gera annars. Málflutningur fer því fram á föstudaginn, 15. mars.

Hæstiréttur Íslands segir að með dómi MDE hafi því verið „slegið föstu að ranglega hafi verið staðið að skipun Arnfríðar Einarsdóttur í embætti landsréttardómara með þeim afleiðingum að við meðferð málsins hafi ekki verið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis að skipan dómstóls skuli ákveðin með lögum.“

Hæstiréttur segir að ef annar eða báðir aðilar máls hefðu ætlað að krefjast þess að dómur Landsréttar yrði ómerktur, yrði að bíða með málareksturinn fyrir Hæstarétti, þar til endanleg niðurstaða fengist í málið, en ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa í dag talað með þeim hætti að leitað verði heimildar til þess að skjóta dómi MDE til yfirdeildar dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka