Mótmælendur úr röðum umsækjenda um alþjóðlega vernd og stuðningsmanna þeirra gistu á Austurvelli í nótt en mótmæli þeirra hafa staðið yfir frá því klukkan 17.00 í gær.
Þegar ljósmyndari mbl.is leit við á Austurvelli á tíunda tímanum í morgun voru nokkrir tugir mótmælenda enn á svæðinu.
Einhverjir þeirra höfðu sofið undir berum himni í frostinu í höfuðborginni en þeir höfðu áður lýst því yfir að það væri betra að sofa í kuldanum en á Ásbrú.
Mótmælendur fara fram á að brottvísunum hælisleitenda verði hætt, að allir hælisleitendur fái efnismeðferð hér á landi og að Dyflinnarreglugerðin sé ekki notuð, að hælisleitendur fái rétt til að vinna og njóti jafns aðgangs að heilbrigðisþjónustu, auk þess sem dvalarstað hælisleitenda á Ásbrú verði lokað.