Flestir skólastjórar í grunnskólum landsins telja að foreldrar hafi of rúma heimild til þess að fá leyfi eða frí frá skóla fyrir börnin sín. Leyfisóskir hafa aukist. Um 1.000 skólabörn á Íslandi glíma þá við það sem kallað er skólaforðun, sem felst í flótta barna frá því að sækja skólann.
Ástæður fyrir því geta verið tilfinningalegir erfiðleikar eða að verið sé að forðast einhverjar aðstæður. Einnig er nefnd sem ástæða þrá barna eftir athygli frá fjölskyldu eða öðrum í umhverfi sínu eða einfaldlega að börnum þyki aðrir staðir áhugaverðari en skólinn.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, sem lét Maskínu gera könnun meðal allra skólastjóra landsins, niðurstöður hennar senda skýr skilaboð til stjórnvalda. Annars vegar séu þau að sett verði opinber viðmið um hvenær foreldrar mega fá leyfi fyrir börnin sín, t.d. með viðmiðum um fjölda frídaga, eða þá að skólastjórnendur fái heimild til að hafna slíkum óskum um leyfi. Hins vegar eru skilaboðin þau að fjarvistaskráning barna verði samræmd um land allt, svo að náð verði utan um umfang skólaforðunarvandans.