„Hvernig væri að einhver þeirra málsaðila, sem mátti þola dóm Hæstaréttar þar sem slíkir dómarar sátu í dómi, kærði nú málsmeðferð Hæstaréttar til MDE?“ spyr Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, á vefsíðu lögmannsstofu sinnar JSG lögmenn í dag.
Tilefnið er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu á þriðjudaginn þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að einn dómari við Landsrétt hefði ekki verið skipaður í samræmi við lög og viðbrögð margra við því. Segir Jón Steinar íslenskt réttarkerfi hafa farið á hliðina í kjölfarið vegna undarlegs dóms Mannréttindadómstólsins.
Jón Steinar rifjar upp að Hæstiréttur hafi kallað inn lögfræðinga til að dæma í næstum öllum málum á síðasta ári sem fæstir hafi verið metnir hæfir til setu í réttinum. „Voru þeir yfirleitt valdir úr hópi vina og kunningja sitjandi hæstaréttardómara. Aðilar þessara mála máttu una því að mál þeirra væru dæmd af þessum ómetanlegu kunningjum dómaranna.“