Ríkisstjórnin átti ekki von á því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu myndi falla á þann veg sem hann gerði. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vera alveg heiðarleg með það, í samtali við mbl.is, að hún hafi ekki átt von á niðurstöðunni sem greint var frá á þriðjudagsmorgun, er hún sjálf var stödd í Bandaríkjunum.
Hvað þá því, að tveimur dögum seinna yrði hún stödd á ríkisráðsfundi á Bessastöðum, þar sem dómsmálaráðherra léti af embætti vegna málsins.
Kom þessi dómur ykkur algjörlega í opna skjöldu?
„Ég var að sjálfsögðu búin að leita til allra þeirra sérfræðinga sem ég leita til um þessi mál og ég átti ekki von á þessum úrskurði. Ég bara segi það alveg heiðarlega,“ segir Katrín. Hún segir ekki liggja fyrir af hvernig tryggt verði að Landsréttur, millidómstigið í landinu, verði starfhæft.
„Það er í raun ekkert búið að taka afstöðu til þess hvernig það verður gert ennþá, enda er þetta mjög flókið og við erum bara að kalla til allt okkar besta fólk til þess að það finnist farsæl lausn á þessu,“ segir Katrín.
Forsætisráðherra segir að verkefnið sé tvíþætt og að vinna sé þegar hafin við að „tryggja það í senn að Landsréttur geti orðið starfhæfur sem fyrst og hins vegar að undirbúa það að áfrýja þessum úrskurði til efri deildar Mannréttindadómstólsins.“
Hún segist viss um að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr ráðherra dómsmála, muni „leysa úr þessum málum farsællega sem þarf að leysa úr.“
Aðspurð hvort að það hafi verið þrýstingur af hálfu Vinstri grænna, sem olli því að Sigríður Á. Andersen skipti um skoðun og ákvað að víkja úr embætti dómsmálaráðherra, segir Katrín að sú ákvörðun hafi verið Sigríðar einnar.
„Ég hafði rætt málin við Sigríði og lýst mínum áhyggjum af stöðu mála, en þetta var hennar ákvörðun.“