Viðgerðir ekki boðnar út

Fossvogsskóli er illa farinn eftir mikinn lekavanda.
Fossvogsskóli er illa farinn eftir mikinn lekavanda. mbl.is/​Hari

Ekki verður farið í heildarútboð á endurbótum á skólabyggingum Fossvogsskóla en fyrir liggur að ráðast þarf í umtalsverðar endurbætur á þeim vegna skemmda. Iðnaðarmenn mæta til vinnu eftir helgi og hefjast strax handa.

„Það myndi tefja mikið fyrir að þurfa að fara í heildarútboð á verkinu. Nú er verið að búa þannig um hnútana að þetta ferli fari hratt og örugglega af stað,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar. Reykjavíkurborg er með iðnaðarmenn á sínum snærum sem sinna tilteknum verkefnum að beiðni borgarinnar. 

Verkefnin eru fjölmörg og verða unnin á sama tíma í skólanum. Þetta er meðal annars að skipta um milliloft og mögulega þarf að skipta um þak vegna lekaskemmda. Í nýjustu byggingunni svokallaðri austurálmu lekur meðfram gluggum þrátt fyrir að reynt hafi verið að gera við þá á síðustu árum. Þar verður klæðningin að utan fjarlægð til að sjá nákvæmlega hvar lekinn er. Á sama stað að innan verður dúkur rifinn upp til að komast fyrir myglu. Auk þess verður farið í endurbætur í matsal.

Óvissa með nýjustu bygginguna    

„Það er samt ekki ódýrara að rífa skólann og byggja nýjan. En það er óvissuþáttur í nýjustu byggingunni af því að það þarf að opna allt fyrst og skoða áður en framkvæmdir hefjast,“ segir Helgi.

Spurður hvort það sé ekki óeðlilegt að mögulega sé nýjasta byggingin sú sem er mest skemmd svarar hann því til að þar hafi verið notast við ný byggingarefni og frágang. „Það er alltaf þróun í byggingarefnum. Við erum að læra betur og betur hvað virkar í íslenskri veðráttu,“ segir Helgi. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar gerði litlar sem engar athugasemdir við skólahúsnæðið skömmu áður en skýrsla byggingaverkfræðifyrirtækis sýndi fram á mögulegar rakaskemmdir og slæm loftgæði. Inntur eftir því hvort ekki þurfi að bæta úttekt á opinberum byggingum í því ljósi segir Helgi „mikilvægt að allir læri af þessu tilviki og þurfi að vera meira á tánum. Bæði þurfa starfsmenn að tilkynna oftar ástandið og kanna þurfi loftgæði nánar,“ segir Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert