Loftslagsverkfall stúdenta á Austurvelli hófst á hádegi í dag þegar mótmælendur komu saman við Hallgrímskirkju og gengu niður á Austurvöll. Stúdentar og framhaldsskólanemar mótmæla aðgerðaleysi í loftslagsmálum.
Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Nú þegar hafa tugþúsundir ungmenna farið að hennar fordæmi og flykkst út á götur til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í baráttunni við loftslagsbreytingar, meðal annars í Belgíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Svíþjóð.
Mótmælendur vilja sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji rótttækar og afdráttarlausar aðgerðir. Þess er meðal annars krafist að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar verður atvinnulífið einnig að axla ábyrgð og til þess verður ákveðin viðhorfsbreyting að eiga sér stað. Þetta kemur meðal annars fram á Facebook-síðu mótmælanna.