Landssamtök landeigenda á Íslandi (LLÍ) telja að verði tillögur Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um breytingar á náttúrverndarlögum samþykktar „mun á ný skapast fullkomið ófremdarástand á fjölsóttum ferðamannastöðum.“ Harma samtökin meðal annars að gjaldtöku verði settar miklar takmarkanir.
Þá segja LLÍ eignarrétt „landeigenda verði fótum troðinn og misskilinn almannaréttur [...] gerður rétthærri en stjórnarskárvarinn eignarréttindi,“ að því er segir í ályktun aðalfundar samtakanna.
Benda samtökin á að í tillögunum sé gert ráð fyrir að landeigendum verði ekki lengur heimilt að takmarka eða banna för um land þeirra. Almennt séu landeigendur ekki mótfallnir almannarétti, en að hingað til hafi verið krafa um að vegfarendur myndu hlíta settum reglum.
Landeigendur lýsa jafnframt áhyggjum af því að þeim verði, að mati þeirra, óheimilt að taka gjald fyrir för um land þeirra. Þeim verði þó heimilt að rukka fyrir afnot af bílastæðum sem ætlað er að standa undir gerð þeirra.
Þá segja þeir að tillögurnar gera ráð fyrir að óheimilt verði að taka gjald til þess að fjármagna viðhald ferðamannastaða, svo sem lagningu stíga eða göngubrúa. „Gjaldtaka er einungis heimil ef um er að ræða endurteknar hópferðir í atvinnuskyni.“
„Engin leið verður að reka ferðmannastaði með þeim takmörkunum sem fram eru settar. Rekstaraðili eða landeigandi getur aldrei vitað hvort rúta sem kemur á staðinn er komin í fyrsta sinn eða er hluti af endurteknu ferðakipulagi,“ segir í ályktuninni.
„Landeigandi sem kýs að verja náttúruna með stígum, pöllum, tröppum, og öðrum viðlíka mannvirkjum á þess engan kost að fá kostnað sinn bættan,“ segja samtökin og mótmæla lagasetningu sem þeir telja skerða stjórnarskrávarinn eignarrétt, skapa flækjur fyrir rekstur ferðamannastaða og skaða náttúruvernd.