Þórdís Kolbrún tók við dómsmálaráðuneytinu

Lyklaskipti í dómsmálaráðuneytinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við lykli …
Lyklaskipti í dómsmálaráðuneytinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við lykli að ráðuneytinu í dag, Sigríður Á. Andersen hefur ákveðið að víkja úr embætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fékk afhentan lykil að dómsmálaráðuneytinu í dag, en Sigríður Á. Andersen víkur úr embætti dómsmálaráðherra eftir að hafa sagt embætti sínu lausu. Þórdís mun funda með starfsmönnum ráðuneytisins í dag.

Létt var yfir þeim flokkssystrum í dag og óskaði Sigríður Þórdísi velfarnaðar í starfi við afhendingu lykilsins. Hún sagði að vel hafi verið staðið að vali einstaklings til þess að gegna embætti dómsmálaráðherra.

Sigríður hefur sagst víkja til hliðar vegna þess að hún hafi haft áhyggjur af því að persóna hennar kynni að trufla ákvarðanir innan ráðuneytisins, en afsögn hennar kemur í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þess efnis að ekki hafi verið skipað í embætti dómara við Landsrétt á grundvelli laga.

Ég ann dóm­stól­un­um of mikið til þess að láta það ger­ast að menn kunni að hengja sig á það að ég hafi haft aðkomu að þeim ákvörðunum sem þar verða tekn­ar,“ var haft eftir Sigríði í fyrradag.

Þórdís sagðist ekki veita viðtöl að svo stöddu þar sem hún ætti eftir að funda með starfsfólki dómsmálaráðuneytisins. Fram hefur komið í umfjöllun mbl.is að verið sé að skoða innan ráðuneytisins hvort íslenska ríkið muni vísa málinu til yfirréttar MDE.

Sjö dómarar MDE dæmdu í málinu og sögðu fimm þeirra skipun dómara í Landsrétt hafa borið merki um skýlaust brot af hálfu íslenska ríkisins. Var í því samhengi vísað til þess að Sigríður hafi gert að tillögu sinni lista yfir fimmtán dómara sem var frábrugðinn þeim sem hæfisnefnd skilaði til ráðherra.

Einnig var gerð athugasemd við málsmeðferð Alþingis á grundvelli þess að ekki var greitt atkvæði um skipun í hvert embætti fyrir sig, eins og lög kveða á um.

Tveir dómarar í málinu skiluðu séráliti þar sem dómurinn var sagður langt umfram tilefni. Töldu þeir vera annmarka á skipunarferlinu, en ekki með þeim hætti að hægt yrði að draga í efa lögmæti skipunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert