Ábyrgð á stöðu láglaunafólks hjá stjórnvöldum

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi í dag.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi í dag. Ljósmynd/Berglaug Petra

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að nýleg útspil ríkisstjórnarinnar í skattamálum beri þess skýr merki að ekki séu uppi áform um að ráðast gegn ójöfnum byrðum mismunandi hópa fólks hér á landi. Segir hann skattbreytingatillögurnar séu blaut tuska í andlitið á launafólki og að frysting persónuafsláttar samhliða breytingunum geri skattalækkanir líklega að engu. Þá sé millitekjuhópunum gefið langt nef með skarpari skerðingu barnabóta en áður. Þetta kom fram í ræðu hans á flokksstjórnarfundi á Bifröst í dag.

„Það væri freistandi að kenna Sjálfstæðisflokknum einum um en hægri stefnan virðist dafna ágætlega undir verndarvæng gamla góða Framsóknarflokksins og forsæti Vinstri-grænna. Sú harka sem nú er á vinnumarkaði er í boði ríkisstjórnar sem neitar að horfast í augu við það að hér búa hópar fólks; bótaþegar, lág- og meðaltekjufólk, námsmenn, við aðstæður sem ekki eru bjóðandi í ríku landi,“ sagði Logi.

Sagði hann óforskammað að stilla stöðunni upp þannig að launafólk sé að kalla hamfarir yfir samfélagið með því að beita verkföllum. „Ábyrgð á slæmri stöðu láglaunafólks liggur annars staðar – m.a. hjá stjórnvöldum sem hafa leyft ójöfnuði að grassera og holað að innan velferðarkerfið.“

Logi sagði að Vinstri græn hefðu þurft að taka við fjölda mála frá Sjálfstæðisflokknum að undanförnu og kyngja þeim. „Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn leikur lausum hala í efnahaglífinu er svo beinlínis raunalegt að horfa á Vinstri græn kyngja hverju málinu á fætur öðru, sem þau áður töluðu gegn; áframhaldandi hvalveiðum, grimmari útlendingastefnu, rýmri rétt til hatursorðræðu og óréttlátu skattkerfi.“

Sagðist Logi hafa í einfeldni sinni talið að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn væru eðlisólíkir flokkar, en að hann hafi haft fullkomlega rangt fyrir sér. „Og leiðtogi sósíalista sem dásamar skattbreytingu sem færir forstjóranum sömu krónutölu og þernu, vegna þess að þernan hafi fengið hlutfallslega meira, hefur líklega villst talsvert af leið.“

Breyting á vinnumarkaði með aukinni sjálfvirknivæðingu var Loga einnig ofarlega í huga í ræðunni. Sagði hann að samkvæmt nýjustu spám muni stór hluti allra starfa hverfa á næstu áratugum, en önnur ný verða til. „Þetta mun leiða til meiri framleiðni, gæti minnkað vistspor og dregið úr fátækt – ef vel er á spilum haldið. En getur líka leitt til hörmunga ef auðurinn fær óheftur að safnast hjá fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum – ójöfnuður aukist og samneyslan veikist.“

Hann sagði að ekki ætti að reyna að stöðva þessa þróun, heldur þyrfti kjark og framsýni til þess að tryggja að hún veðri til góðs og nýtist heildinni. „Besti undirbúningur okkar undir slíka framtíð er fjárfesting í menntun,“ sagði Logi og bætti við að sú staðreynd að meira en helmingur íslenskra nemenda á Norðurlöndunum velji að taka lán í námslandinu en ekki á Íslandi sé áfellisdómur yfir LÍN.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert