Staðfest hefur verið að myglu sé að finna í tveimur grunnskólum í Reykjavík, en til viðbótar er til skoðunar hvort lekamál í tveimur öðrum skólum hafi leitt til myglu. Þá á að fara í heildarúttekt á skólahúsnæði borgarinnar í sumar til að skoða leka sem vafi leikur á. Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, en í kvöldfréttum Rúv var greint frá því að líkur væru á myglu í fjórum skólum.
Í samtali við mbl.is segir Helgi að aðgerðir standi nú þegar yfir í Breiðholtsskóla og Fossvogsskóla. Í fyrrnefnda skólanum þurfti að rýma eina álmu þar sem lekið hafði með gluggum og vatn runnið á milli útveggja og einangrunar í innveggjum. Helgi segir að ekki hafi sést nein ummerki um myglu að innanverðu og það hafi ekki verið fyrr en einkenni hafi komið fram hjá starfsfólki og nemendum sem myglan og lekinn hafi fundist. Hann segir að rýmingin hafi haft áhrif á nokkra tugi nemenda.
Í Fossvogsskóla var greint frá myglu nýlega, en ákveðið var að rýma allan skólann og finna nýjan kennslustað út skólaárið. Verður notast við höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal og aðstöðu Þróttar og Ármanns. Til viðbótar verður til skamms tíma notast við bráðabirgðastofur sem eru á skólalóðinni við Fossvogsskóla og voru settar upp í haust. Helgi segir hins vegar að fljótlega muni þeir nemendur sem verði þar færast yfir í Laugardalinn þannig að öll starfsemin verði á svipuðum stað. Bráðabirgðastofurnar verði hins vegar notaðar sem frístundaheimili.
Flutningur hefst á morgun úr Fossvogi í Laugardal, en gert er ráð fyrir að kennsla hefjist á þriðjudaginn. Segir Helgi að stjórnendur og aðrir starfsmenn skólans hafi unnið alla helgina að því að setja upp skipulag fyrir flutninginn sem og að undirbúa breytt skipulag skólastarfs og rútuferðir sem verða á milli Fossvogs og Laugardals. „Það verður ákveðin kúnst að laga kennslu og starf að nýjum aðstæðum,“ segir hann og tekur fram að þó að húsnæðið sé ekki fullkomið fyrir skólastarf, þá sé það hins vegar gott miðað við aðstæður.
Segir hann að um sé að ræða meðal annars fundaraðstöðu og því sé einhver búnaður þegar til staðar sem minnki magn þess sem þarf að flytja. Þá verði talsverðu fargað og nefnir hann að aðeins verði flutt lágmarksmagn pappírsgagna. Helgi þakkar KSÍ, Þrótti og Ármanni sérstaklega fyrir viðbrögðin og segir að borgaryfirvöld hafi mætt miklum velvilja hjá þessum félögum.
Í Fossvogsskóla er ástæða myglu mismunandi eftir álmum, en Helgi segir að í elsta húsinu sé gallað milliloft og þar hafi komið raki og mygla. Í miðhúsi skólans hafi verið kominn tími á þakið og því verði skipt út vegna leka sem og millilofti. Í austustu byggingunni sé um að ræða leka meðfram gluggum og þar þurfi að fara í stórtækar aðgerðir og taka af klæðningu. Segir hann að í raun þurfi að fara yfir veggina frá A til Ö og hreinsa burt skemmdir að innanverðu. Í heild hefur rýmingin áhrif á 340 börn.
Í Ártúnsskóla og Seljaskóla hafa svo komið fram einkenni um raka eða leka. Í Ártúnsskóla er verið að fara yfir hvort eitthvað hafi skemmst og kalli á hreinsun, en þar hefur lekið á nokkrum stöðum. Helgi segir að vitað sé um raka í Seljaskóla, en þar þurfi að athuga betur með myglu.
Helgi segir að rekja megi leka og lélegt viðhald til þess að eftir hrun hafi fjármunir í viðhald verið skornir niður. Sem dæmi nefnir hann að fljótlega eftir hrun hafi borgin sett um 400 milljónir í viðhald, en í ár sé það komið upp í 2,5 milljarða. „Við erum komin á rétt ról núna, en enn er verið að vinna við að ná í skottið á sér,“ segir hann og tekur fram að hann geti ekki sagt hversu langan tíma það muni taka að vinna á uppsöfnuðum vanda.
Umhverfis- og skipulagssvið mun að sögn Helga fara í heildarúttekt á stöðu skólahúsnæðis í borginni í sumar og þá mun koma betur í ljós hver uppsafnaður vandi er.