Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur skýrslu á Alþingi klukkan 14 þar sem hún fer yfir viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.
Líkt og fram hefur komið taldi Mannréttindadómstóll Evrópu að ekki hafi verið skipað í embætti dómara við Landsrétt með löglegum hætti.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er nýr dómsmálaráðherra en Sigríður Á. Andersen sagði af sér í kjölfar dómsins.
Sjö dómarar MDE dæmdu í málinu og sögðu fimm þeirra skipun dómara í Landsrétt hafa borið merki um skýlaust brot af hálfu íslenska ríkisins. Var í því samhengi vísað til þess að Sigríður hafi gert að tillögu sinni lista yfir fimmtán dómara sem var frábrugðinn þeim sem hæfisnefnd skilaði til ráðherra.
Einnig var gerð athugasemd við málsmeðferð Alþingis á grundvelli þess að ekki var greitt atkvæði um skipun í hvert embætti fyrir sig, eins og lög kveða á um.