Hópur flóttamanna sem staðið hefur fyrir mótmælum við Alþingishúsið undanfarið ákvað í dag að færa mótmæli sín af Austurvellinum. Á Facebook-síðu mótmælenda er sagt að þetta sé gert vegna þess að veran við þinghúsið sé farin að bitna á heilsu mótmælenda.
Leyfisbréf mótmælendanna frá Reykjavíkurborg fyrir hvíta tjaldinu á Austurvelli rann út klukkan átta í gærkvöldi og var tjaldið horfið fyrir þann tíma.
Á Facebook-síðunni Refugees in Iceland segjast mótmælendur ætla að halda baráttu sinni fyrir því að yfirvöld fallist á viðræðufundi við þá áfram. „Þrátt fyrir stuðninginn sem við höfum fengið, þá er ekki hægt að neita því að vika úti í þessu veðri er farin að hafa áhrif á heilsuna,“ segir í færslunni.
Fólk sé tekið að veikjast og ekki verði við það búið að baráttan líði fyrir heilsubrest. Því verði mótmælin nú færð af Austurvelli.
Kröfum um að allir fái efnislega meðferð á sínum umsóknum og hælisleitendum verði gert kleift að vinna meðan á málsmeðferð stendur verði áfram haldið á lofti, sem og kröfum um að allir fái jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og að einangrandi flóttamannabúðunum á Ásbrú verði lokað.