Iðnaðarmenn slitu viðræðum við Samtök atvinnulífsins skömmu fyrir hádegi en fundur hjá samninganefndum hófst klukkan 11 í morgun. Iðnaðarmenn fara nú að undirbúa verkfallsaðgerðir.
„Við teljum að það þurfi að auka þrýsting á viðsemjendur okkar til að komast lengra,“ er haft eftir Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, formanni Rafiðnaðarsambands Íslands, á vef RÚV.
Ágreiningsmálin í samningunum séu mörg, til að mynda vinnutíminn.
Starfsgreinasambandið sleit viðræðum sínum við SA í gær.
„Þetta þýðir að við förum í að kalla saman okkar aðgerðahóp og þar munum við taka ákvörðun um það hvernig við munum í framhaldinu skipuleggja okkur til þess að setja meiri þrýsting á að ná kjarasamningum,“ sagði Björn formaður SGS í gær. Viðbúið er að allt að 20.000 félagsmenn fari í verkföll í apríl eða maí.