Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, segir stöðuna sem er uppi vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu vegna skipunar dómara í Landsrétti vera bæði óþolandi og ólíðandi.
Ingibjörg sagði á málþingi í Öskju skoðanir sem séu uppi innan Dómarafélags Íslands á því ástandi sem nú er uppi vera afar skiptar. „Þetta er staða sem er óþolandi, hún er ólíðandi. Við hljótum að geta verið sammála um að þetta viljum við ekki að gerist,“ sagði hún og velti því fyrir sér hvaða áhrif ástandið hafi á áhuga fólks um að sækja um störf dómara á næstunni. „Það mun skaða dómskerfið ef þetta fælir hæf dómaraefni frá því að sækja um þessi störf,“ sagði hún.
Ingibjörg sagði dóm MDE byggja að verulegu leyti á niðurstöðu Hæstaréttar um þá ágalla sem hafi verið á skipun dómara í Landsrétt. „Þessi niðurstaða eykur líkurnar á því að þeir sem fari með skipunarvald dómara í framtíðinni fylgi í hvívetna lögum.“
Hún sagði að skapast hafi deilur og órói vegna skipunar dómara í Landsrétt og undirbúningurinn að dómstólnum hafi „því miður varpað skugga á allt það jákvæða sem tilkoma þessa dómstóls er“. Nefndi hún að skugga hafi verið varpað á starfsemi dómstólsins og dómskerfisins í heild sinni.
„Þetta er afar þungbært fyrir það fólk sem hefur ekkert annað til saka unnið en að sækja um starf,“ sagði hún og nefndi að dómarar innan Dómarafélags Íslands hafi ákveðið að taka ekki þátt í dómsstörfum og einnig sé þar fólk sem hafi orðið fyrir verulegum miska vegna þess að gengið var fram hjá því sem dómurum við Landsrétt.