Íslenskur heimsmeistari í íssundi

Birna Hrönn Sigurjónsdóttir er heimsmeistari í íssundi í sínum aldursflokki.
Birna Hrönn Sigurjónsdóttir er heimsmeistari í íssundi í sínum aldursflokki. Ljósmynd/Aðsend

Það var 21 stigs frost þegar Birna Hrönn Sigurjónsdóttir steig út úr flugvélinni í Múrmansk í Rússlandi til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í íssundi, sem þar fór fram fyrr í þessum mánuði. „Maður þarf náttúrulega að vera léttgeggjaður til að vera í þessu,“ segir Birna Hrönn sem fór með sigur af hólmi í sínum aldursflokki.

Birna Hrönn, sem er 46 ára, segist alltaf bara fara til að hafa gaman og vera með, en þetta er annað heimsmeistaramótið í íssundi sem hún tekur þátt í. „Ég fór á heimsmeistaramótið í íssundi í Þýskalandi fyrir tveimur árum og lenti þá í þriðja sæti,“ segir hún. „Ég var ekki að bæta tíma minn núna, en þetta voru líka miklu, miklu erfiðari aðstæður.“

Líkt og áður sagði var 21 gráðu frost þegar Birna Hrönn kom til Múrmansk. Á keppnisdegi var frostið hins vegar komið niður í fjórar gráður og vatnshitinn var á bilinu 0 til -0,4 gráður. „Það þarf reglulega að veiða klakann ofan af svo við skerum okkur ekki, af því að þetta frýs bara þarna,“ segir Birna Hrönn sem synti 1.000 metra leið í þessu ískalda vatni.

Birna er hér dúðuð við laugarbakkann, en reglulega þarf að …
Birna er hér dúðuð við laugarbakkann, en reglulega þarf að veiða klakann ofan af vatninu svo keppendur skeri sig ekki. Ljósmynd/Aðsend

Ekki allir standast læknisskoðun

Spurð hvernig sé að synda í svo köldu vatni segir hún keppendur stífna upp. „Maður stífnar mikið upp við að synda og þá þarf maður að reyna að halda sama hraða þó að maður stífni. Það hægir því á flestum nema mér, ég byrja hægt og held því bara,“ segir Birna Hrönn. Spurð hvernig hún haldi áfram þegar líkaminn fer að stífna upp segir hún þetta snúast allt um að hafa hausinn í lagi. Svo eigi hún líka gott bakland sem hún hugsi mikið til á sundinu. „Svo er maður bara allt í einu búinn með 500 metra.“

Mjög vel er fylgst með keppendum og meðal annars eru tekin af þeim hjartalínurit, súrefnismettun skoðuð, blóðþrýstingur mældur og hitastig. „Það eru alltaf einhverjir sem ekki fá að synda,“ segir Birna Hrönn og kveðst sjálf hafa óttast að standast ekki læknisskoðun þar sem hún var með flensu daginn áður en hún fór út.

Spurð hvað fái fólk til að stinga sér út í ískalt vatn í slíku frosti hlær Birna Hrönn og segir: „Maður þarf náttúrulega að vera léttgeggjaður til að vera í þessu, en þetta er bara svo ótrúlega heillandi, stemmningin. Því þó að við séum öll að keppa þá erum við samt eins og ein stór fjölskylda.“

Lífshættulegt sund í þessum kulda

Birna Hrönn var eini keppandinn frá Íslandi og fékk því aðstoð frá öðrum liðum. Keppendur þurfa allir að vera með aðstoðarmann sem fylgist með þeim á sundinu, tekur tímann hvort keppandinn sé að hægja á sér og ákveður í kjölfarið hvort hann sé fær um að synda. Að þessu sinni fékk Birna Hrönn aðstoð frá hollenska liðinu. „Þeir sem hafa fylgst með mér eru mjög strangir,“ segir hún og kveðst vilja hafa það þannig. „Ég vil frekar hætta. Það er meira kúl að hætta en drepast því þetta er alveg lífshættulegt þegar komið er niður í þetta hitastig.“

Birna Hrönn hefur þó ekki enn lent í því að vera kippt upp úr og segir hún ástæðuna þá að hún sé með „gríðarlega gott kuldaþol“. Nokkuð var hins vegar um að kafarar kipptu keppendum upp úr sem voru orðnir of kaldir til að fá að halda áfram.

Fyrst eftir sundið segist hún verða mjög þvoglumælt, því bæði tungan og munnurinn séu frosin. „Núna þurftum við að labba töluverðan spotta yfir á upphitunarsvæðið og þá hjálpaði aðstoðarmaðurinn mér, því maður er smá valtur.“ Að sundi loknu sé hún svo vön að labba og fara í heitan pott. „Þarna fengum við hins vegar stöðugt sett heit handklæði utan um okkur og það var alveg geggjað.“ Fyrst þurftu keppendur þó að setja hendurnar í vatn með ísmolum í og segja til um hvort það væri kalt eða heitt. „Og ef manni fannst það heitt, þá var maður of kaldur til að fara að fá heitan bakstur.“

Íslenski fáninn er hér kominn á pall með Birnu í …
Íslenski fáninn er hér kominn á pall með Birnu í Múrmansk. Ljósmynd/Aðsend

Sundhetta og sundgleraugu eini hlífðarbúnaðurinn

Birna Hrönn býr í Þorlákshöfn og æfir sund bæði í höfninni og sundlauginni. „Það eru nokkrir sem stunda þetta og ég hef bara fengið klapp og stuðning,“ segir hún um viðbrögð bæjarbúa. Hún vill líka gjarnan fá fleiri Íslendinga með sér í íssundið, en landinn hefur verið tregur til þessa. „Það vill enginn koma af því að við megum ekki nota hanska eða annan slíkan hlífðarbúnað,“ útskýrir hún. Á heimsmeistaramótinu þurfa keppendur að vera í einum óhitaeinangruðum sundbol og ekki er leyfður annar hlífðarbúnaður en sundhetta og sundgleraugu. „Það er það sem fólk er ekki til í og ég skil ekki af hverju, af því þetta er æðislegt,“ segir Birna Hrönn og hlær.

Sem krakki æfði Birna Hrönn sund, en hætti svo og eignaðist börn „og fór í þann pakkann“ eins og hún orðar það. Það var svo fyrir níu árum sem hún prófaði sjósund og hefur ekki hætt eftir það.

„Síðan þá er ég búin að vera að synda í laug líka því ég er alltaf með einhver markmið,“ útskýrir Birna Hrönn og kveðst vera búin að synda öll helstu sund á Íslandi, m.a. úr Hrísey, yfir Siglufjörð og svo Drangeyjarsund. Hún kveðst líka lifa fyrir að finna sér nýjar áskoranir og er að sjálfsögðu komin með eina slíka í sigtið. „Ætli ég æfi ekki í sumar og stefni svo á næsta ári á að taka þátt í heimsbikarmótaröðinni,“ en sú mótaröð er haldin í nokkrum löndum. „Ég er rétt að byrja og maður verður aldrei of gamall í þetta,“ segir hún.

Birna Hrönn vill gjarnan fá fleiri Íslendinga með sér í íssundið og er þeim sem hafa áhuga bent á að hafa samband við hana í gegnum Facebook, en hún er talsmaður International Ice Swimming  Association á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert