Morð og pyntingar í sömu setningu

AFP

Morð, pyntingar, kynbundið ofbeldi, fangelsanir án dóms og laga eru meðal orða sem koma upp í hugann þegar fjallað er um mannréttindi og Sádi-Arabíu í sömu setningu. Ísland leiddi hóp ríkja í gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi-Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna nýverið. Er það í fyrsta skipti sem Sádi-Arabía sætir slíkri samstilltri gagnrýni í ráðinu og markar frumkvæðið því tímamót.

Holskefla gagnrýni og reiði fór um heiminn þegar fréttir bárust af morði á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi í byrjun október. Aðeins nokkrum mánuðum fyrr (15. maí) höfðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu aflétt banni við því að konur settust undir stýri bifreiða.

24. júní hófu sömu yfirvöld að handtaka og fangelsa þekktar baráttukonur fyrir jafnrétti kynjanna. Þær voru sakaðar um gróf brot, svo sem landráð. Brot sem reyndust tengjast beint mannréttindabaráttu þeirra. 

Það var ekki fyrr en í síðustu viku sem þær voru loks leiddar fyrir dómara. Nákvæmlega viku eftir að Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti hið sameiginlega ávarp fyrir hönd 36 ríkja. 

Sjá nánar hér

Meðal þeirra eru þekktar baráttukonur eins og Loujain al-Hathloul, Hatoon al-Fassi, Aziza al-Yousef og Eman al-Nafjan. Þarna fengu þær fyrst að heyra með formlegum hætti hvers vegna þær hefðu verið á bak við lás og slá í níu mánuði.

AFP

Ákærðar fyrir netglæpi

Ekki er gefið út opinberlega hverjar ákærurnar eru en samkvæmt upplýsingnum frá mannréttindasamtökunum ALQST eru þær ákærðar fyrir netglæpi og að þær eigi yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm verði þær fundnar sekar. Brot þeirra felast meðal annars í því að hafa verið í samskiptum við alþjóðleg mannréttindasamtök. 

Fjölskyldur þeirra fengu að vera viðstaddar í dómssalnum þegar ákærurnar voru kynntar en vestrænum blaðamönnum var meinaður aðgangur sem og embættismönnum vestrænna ríkja. Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldum þeirra hafa þær verið pyntaðar og orðið fyrir kynferðislegri áreitni í varðhaldinu. 

Mótmæli fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í París á alþjóðlegum baráttudegi …
Mótmæli fyrir utan sendiráð Sádi-Arabíu í París á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. AFP

Kvenréttindabarátta glæpur?

Svo virðist sem einhver breyting hafi orðið á viðhorfi yfirvalda því nú mega fjölskyldur þeirra leita til sjálfstæðra lögfræðinga eftir aðstoð en hingað til hefur þeim verið meinað að fá slíka aðstoð. 

Samah Hadid, sem stýrir starfi Amnesty International í Mið-Austurlöndum, segir að svo virðist sem yfirvöld í Sádi-Arabíu líti á kvenréttindabaráttu sem glæp samkvæmt þessu og um hættulega þróun á réttarkerfi landsins hvað varðar mannréttindabrot sé að ræða. Konurnar hafi verið í haldi í tæpt ár án þess að fá að hitta lögfræðinga, þær hafi verið pyntaðar, sætt illri meðferð og verið áreittar kynferðislega. 

Þessi mynd er tekin í Indónesíu en svipuðum refsingum hefur …
Þessi mynd er tekin í Indónesíu en svipuðum refsingum hefur verið beitt á konur í Sádi-Arabíu. AFP

Adam Coogle, sem starfar hjá Mannréttindavaktinni (Human Rights Watch), tekur í svipaðan streng. Hann segir réttarhöldin og illa meðferð á konunum vera enn eitt merkið um vaxandi kúgun og undirokun í landinu. Yfirvöld ættu að stöðva strax þessa ósanngjörnu málsmeðferð og láta alla aðgerðasinna sem sitja í fangelsi fyrir friðsamleg mótmæli lausa úr haldi, segir Coogle. 

Fjölmiðlar hliðhollir stjórnvöldum í Sádi-Arabíu segja að konurnar séu svikarar og starfi fyrir erlend ríki við að grafa undan þjóðaröryggi.

Loujain al-Hathloul er 29 ára gömul en hún hefur setið í fangelsi í eitt ár eða frá því hún var handtekin undir stýri bifreiðar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem hún býr. Hún var framseld til Sádi-Arabíu og hneppt í varðhald. Nokkrum dögum síðar var hún látin laus - til þess eins að vera handtekin nokkrum vikum síðar ásamt fleiri aðgerðasinnum sem hafa barist fyrir réttindum kvenna til að aka bifreiðum. 

AFP

Líkt og fram hefur komið á mbl.is telur Amnesty International og fjölskylda Hathloul að hún hafi verið pyntuð og beitt kynferðislegu ofbeldi í fangelsi. Óttaðist fjölskyldan að hún yrði ákærð fyrir hryðjuverk en nú hefur það breyst eins og áður sagði og hún ásamt fleirum dregin fyrir sakadóm. 

Erfitt að réttlæta ákæruna

Hluti þeirra, þar á meðal Hathloul, var nýverið þvingaður til að skrifa undir bréf þar sem óskað er eftir því að þær verði náðaðar af konungi landsins. 

Bessma Momani, prófessor við Waterloo-háskólann í Kanada, segir að svo virðist sem erfitt hafi verið fyrir stjórnvöld í Sádi-Arabíu að réttlæta ákæru á grundvelli hryðjuverkaógnar en að ákæra þær fyrir saknæmt athæfi geti auðveldað stjórnvöldum að sýkna þær og forða stjórnvöldum frá því að verða að athlægi.

AFP

Nauðsynlegt sé fyrir yfirvöld þar í landi að reyna að bæta ásýnd sína fyrir alþjóðasamfélaginu. Annað sé einfaldlega of kostnaðarsamt fyrir ríkið meðal annars efnahagslega þar sem Sádi-Arabía á í viðskiptum við fjölmörg vestræn ríki. Tvískinnungur eins og að heimila konum að keyra á sama tíma og konur eru handteknar fyrir að keyra orki tvímælis meðal alþjóðasamfélagsins og því hafi stjórnvöld orðið að bregðast við með einhverjum hætti.

Mohammed bin Salman krónprins hefur verið mjög í mun að bæta orðspor Sádi-Arabíu út á við og færa landið nær nútímanum. Fangelsun aðgerðasinna og morðið á Khashoggi hefur dregið mjög úr trú fólks á að Sádi-Arabía sé að færast nær nútímanum hvað varðar mannréttindi líkt og krónprinsinn stefndi að á sínum tíma, að minnsta kosti opinberlega. 

AFP

Scala skilar peningum

Fyrr í vikunni var greint frá því að ítalska óperuhúsið La Scala hefði ákveðið að endurgreiða yfir þrjár milljónir evra sem fengnar höfðu verið að láni hjá fjárfestingarsjóði í eigu ríkissjóðs í Sádi-Arabíu. Er það gert vegna andstöðu almennings við að óperuhúsið treysti á fjármagn þaðan. Eins höfðu mannréttindasamtök og stjórnmálamenn gagnrýnt lánveitinguna en hún hefði þýtt að menningarmálaráðherra Sádi-Arabíu fengi sæti í stjórn La Scala. 

Stjórnarformaður Scala og borgarstjóri Mílanó, Giuseppe Sala, segir að einhugur hafi verið um það í stjórninni að endurgreiða lánið. Milljónirnar þrjár voru hluti af 15 milljóna evra samstarfssamningi til fimm ára við menningarmálaráðuneyti Sádi-Arabíu. 

Samningurinn féll í grýttan jarðveg meðal margra stjórnmálamanna þar á meðal þingmanna Bandalagsins. Formaður flokksins og innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hvatti stjórn Scala til þess að slíta samningnum og héraðsstjóri Lombardia, sem einnig er félagi í Bandalaginu, lagði til að listrænn stjórnandi Scala, Alexander Pereira, yrði rekinn úr starfi. En Sala segir að Pereira, sem annaðist samningsgerðina við Sádi-Arabíu, myndi halda starfinu.

Í fréttum fjölmiðla um allan heim af málum tengdum mannréttindabrotum í Sádi-Arabíu, frá því Harald Aspelund flutti ávarpið fyrir mannréttindaráði SÞ í Genf, er ítrekað vísað í gagnrýnina og að Ísland hafi leitt hana. Ísland var kjörið í mannréttindaráðið síðasta sumar og hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpað ráðið í þrígang á þeim tíma, fyrstur íslenskra utanríkisráðherra. 

Frá fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf.
Frá fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. Utanríkisráðuneytið

Í ávarpinu sem Harald flutti í Genf 7. mars er framganga stjórnvalda í Sádi-Arabíu í mannréttindamálum gagnrýnd harðlega, meðal annars að baráttufólk fyrir mannréttindum, þ.m.t. auknum réttindum kvenna, sé handtekið og sæti fangelsisvist án dóms og laga. Þá fordæma ríkin morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi og undirstrika mikilvægi þess að standa vörð um málfrelsi hvarvetna í heiminum, og þá kröfu að fram fari sjálfstæð og óhlutdræg rannsókn á morði Khashoggis og hinir ábyrgu sæti ábyrgð.

Ríkjahópurinn gagnrýnir jafnframt að lögum um varnir gegn hryðjuverkum sé beitt til að réttlæta handtökur einstaklinga sem ekkert hafa til sakar unnið og einungis nýtt sér grundvallarmannréttindi. Sérstaklega er kallað eftir því að 10 nafngreindir einstaklingar, þar af níu konur, verði leystir úr haldi - Loujain al-Hathloul, Eman al-Nafjan, Aziza al-Yousef, Nassima al-Sadah, Samar Badawi, Nouf Abdelaziz, Hatoon al-Fassi, Mohammed Al-Bajadi, Amal Al-Harbi og Shadan al-Anezi.

Alls sitja 47 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna í ráðinu. Ríkin sem eiga hlut að þessari yfirlýsingu auk Íslands eru: Austurríki, Ástralía, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Kanada, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Noregur, Nýja-Sjáland, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Spánn, Svartfjallaland, Slóvakía, Slóvenía, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

Frétt mbl.is

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

CNN um réttarhöldin

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert