Valdbeiting lögreglu aldrei „krúttleg“

Sigríður Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn komu fyrir …
Sigríður Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn komu fyrir hönd lögreglu á fundinn í morgun. mbl.is/​Hari

„Valdbeiting verður aldrei falleg,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun. Fundurinn var haldinn að beiðni Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur þingmanns Pírata, til þess að ræða aðgerðir lögreglu gegn mótmælendum á Austurvelli 11. mars síðastliðinn.

Ásgeir Þór útskýrði fyrir þingmönnum á fundinum, að hann teldi lögreglu hafa beitt meðalhófi í aðgerðum sínum, þar sem piparúða var beitt og tveir handteknir. Valdbeiting yrði hins vegar aldrei „krúttleg“.

Fram kom í máli Ásgeirs að í þeim aðstæðum sem þarna voru uppi, þar sem einn mótmælandi hafði verið handtekinn fyrir að sparka ítrekað í lögreglumann og svo annar handtekinn fyrir að reyna að koma í veg fyrir handtöku hins fyrsta, hefði lögregla haft heimild til þess að beita kylfum gegn mótmælendum. Beiting piparúða væri hins vegar skilgreind sem vægara valdbeitingarúrræði.

„Þannig að við teljum að við höfum beitt meðalhófi,“ sagði Ásgeir Þór, í svari við spurningu Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingar. Annar nefndarmanna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist telja að viðbrögð lögreglu hefðu verið umfram tilefni og stærðargráðu mótmælanna og bætti við að henni hefði blöskrað aðferðir lögreglu.

„Mér blöskruðu aðferðir lögreglunnar,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
„Mér blöskruðu aðferðir lögreglunnar,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/​Hari

Fram kom á fundinum að fjórir mánuðir hið minnsta gætu liðið þar til nefnd sem hefur eftirlit með störfum lögreglu skilar sinni lokaniðurstöðu um aðgerðir lögreglu. Nefndin hefur mánuð til þess að skoða málið og senda til lögreglu og þá hefur lögregla þrjá mánuði til þess að fara yfir málið áður en það er svo aftur sent til óháðu nefndarinnar, sem skilar lokaskýrslu.

Samkvæmt svörum Ásgeirs á fundinum var piparúða beitt gegn mótmælendum í um það bil eina mínútu, laust fyrir kl. 18 á mánudaginn í síðustu viku, er mótmælendur gerðu aðsúg að lögreglumönnum við störf sín. Ákvörðunin um að beita piparúðanum var tekin af sveitarstjóra lögreglu á vettvangi. Eftir að valdbeitingunni var hætt var strax kallað á sjúkrabíl til þess að hlúa að þeim mótmælendum sem höfðu orðið fyrir piparúðanum.

Þetta var í fyrsta sinn sem lögregla beitir piparúða gegn mótmælendum hér á landi síðan árið 2009. Fram kom í máli Sigríðar Guðjónsdóttur lögreglustjóra að frá því að piparúða var síðast beitt hefðu farið fram 130 mótmæli hér á landi sem lögregla hefði fylgst með.

Fulltrúar Andrýmis, sem mættu fyrst fyrir nefndina í morgun, sögðu að erlendi maðurinn sem var handtekinn þennan dag hefði hvorki talað íslensku né ensku og að honum hefði ekki verið útvegaður túlkur eftir handtökuna og því ekki fengið útskýringu á því af hverju hann væri handtekinn.

Spurður út í þetta sagði Ásgeir að maðurinn hefði ekki viljað gefa upp nafn við handtökuna og því hefði verið erfitt að kalla til túlk, þar sem ekki hefði verið hægt að ákvarða þjóðerni mannsins eða hvaða tungumál hann talaði.

Voru fjórðu mótmæli þessa sama hóps

Ásgeir Þór fór í stuttu máli yfir mótmæli hælisleitenda og stuðningsmanna þeirra, sem farið hafa fram undanfarnar vikur. Mótmælt hefur verið í flugstöð Leifs Eiríkssonar, við búsetuúrræði að Bæjarhrauni í Hafnarfirði og einnig við skrifstofur Útlendingastofnunar (ÚTL) að Dalvegi í Kópavogi og voru mótmælin á Austurvelli því þau fjórðu í röðinni, hjá þessum sama hópi.

Ásgeir Þór sagði að á mótmælunum við ÚTL hefði hluti mótmælanda gert sig líklega til þess að kasta eggjum í húsnæðið og að kallað hefði verið í gjallarhorn að mótmælendur ættu að brjóta sér leið inn í húsnæðið. Lögregla kom í veg fyrir eggjakastið og gerði eggin upptæk. Að sögn Ásgeirs reyndist ekki einhugur hjá mótmælendum um að ráðast inn í húsnæði ÚTL, heldur var það einungis skoðun lítils hluta þeirra, að það ætti að gera.

Sigríður og Ásgeir svöruðu spurningum þingmanna um aðgerðir lögreglu á …
Sigríður og Ásgeir svöruðu spurningum þingmanna um aðgerðir lögreglu á Austurvelli 11. mars síðastliðinn, þar sem piparúða var beitt gegn mótmælendum í fyrsta sinn frá árinu 2009. mbl.is/​Hari

Mánudaginn 11. mars höfðu lögreglu borist upplýsingar um að mótmælendur ætluðu að „taka yfir“ Austurvöll og slá upp tjaldbúðum. Fyrir því var ekki leyfi og um kl. 15 þennan dag kom til ryskinga á milli lögreglu og mótmælenda, sem myndað höfðu um það bil 30 manna keðju um tjöld sín á Austurvelli miðjum. Lögregla rauf manngerðu keðjuna og fjarlægði tjöldin.

Eftir það róaðist á Austurvelli, að sögn Ásgeirs, þar til á sjötta tímanum, er mótmælendur fóru að bera „vörubretti og einhvern pappa“ inn á völlinn.

Ætluðu ekki að bíða eftir að kveikt væri í

„Það leit út þannig að þau ætluðu að búa til bálköst,“ sagði Ásgeir Þór við nefndarmenn og bætti við að „ýmsar skýringar“ hefðu verið gefnar á því af hálfu mótmælenda hver tilgangur þessa hefði verið, en íslenskir aðgerðasinnar sem komu að mótmælunum hafa hafnað því að til hafi staðið að kveikja bálkost. Það gerðu einnig fulltrúar Andrýmis, sem mættu á fund nefndarinnar í morgun.

Lögregla gaf fyrirmæli um að fjarlægja vörubretti og pappann af Austurvelli. Við því var ekki orðið. „Við ætluðum ekki að bíða eftir að það yrði kveikt í þessu,“ sagði Ásgeir Þór, en er lögregla réðst í það að fjarlægja þessa hluti af Austurvelli lagðist hluti mótmælenda ofan á dótið.

Fólkið var þá „fjarlægt“, sagði Ásgeir og í þeirri aðgerð sparkaði einn mótmælenda ítrekað í lögregluþjón sem varð til þess að hann var handtekinn og sú atburðarás sem endaði með notkun piparúða og greint er frá hér að ofan hófst.

Nefnd um eftirlit með lögreglu styðst við myndbandsupptökur frá ýmsum sjónarhornum af Austurvelli í rannsókn sinni, en eins og áður segir gætu fjórir mánuðir liðir þar til niðurstaðan óháðu nefndarinnar liggur fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert