„Það hefur ekkert verið rætt um fjárhagslega aðkomu ríkisins að þessu máli og þessar viðræður verða bara að hafa sinn gang. Þessi félög hafa sett sér tímamörk í því og það er bara það sem stendur yfir,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.
Katrín sótti ekki ríkisstjórnarfund í dag, þar sem hún er stödd í Brussel á leiðtogafundi Evrópusambandsins. Hún segir stjórnvöld vera upplýst um viðræður Icelandair og WOW air sem hófust í dag og munu standa yfir um helgina.
„Það er eðlilegt, því að ef þær ganga eftir þá mun koma til aðkomu stofnana stjórnvalda, svo sem Samkeppniseftirlitsins og Samgöngustofu sem veitir flugrekstrarleyfi,“ segir Katrín.
Forsætisráðherra segir að stjórnvöld hafi verið upplýst um þróun mála jafnóðum hvað varðaði viðræður Indigo Partners og WOW air, sem sigldu í strand og einnig upplýst um það að viðræður Icelandair og WOW air myndu fara af stað.
Hins vegar svaraði Katrín ekki spurningu blaðamanns um það hvenær stjórnvöld hefðu fengið vitneskju um að Indigo hefði hætt við fjárfestinguna í WOW air, ekki frekar en Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
„Við höfum verið upplýst um þróun mála jafnóðum og upplýst sömuleiðis um að þessar viðræðu myndu fara af stað. Við vitum að til kasta stjórnvalda þarf að koma, en við erum ekkert aðilar að þeim og erum ekkert upplýst frekar um gang þeirra.“
Spurð út í það hvort hún hafi áhyggjur af stöðunni sem nú er uppi, segir Katrín:
„Eðlilega, þetta er stórt félag og það hefur afleidd áhrif út í ferðaþjónustuna og við höfum fyrst og fremst verið að fylgjast með vegna þess að við vitum að þetta kynni að hafa áhrif á stöðu efnahagsmála.“